Categories
Greinar

ORKUBÚIÐ ER KJÖLFESTUFYRIRTÆKI Á VESTFJÖRÐUM

Í 40 ára sögu Orkubúsins hefur verið byggð upp mikil þekking og reynsla innan fyrirtækisins. Ef af sameiningu á dreifihlutanum verður hjá Orkubúinu og RARIK er ljóst að áfram verði starfskraftur staðsettur í fjórðungnum eins og nú er til að reka og viðhalda dreifikerfinu. Hinsvegar er ósvarað hvað verði um samkeppnishlutann sem er öflun og sala raforkunnar. Við í Framsóknarflokknum leggjum höfuðáherslu á að sá hluti verði áfram í þjóðareigu og að yfirstjórn og starfskraftur þess hluta sé áfram á Vestfjörðum. Ekki síst í ljósi þess að sveitarfélögin á svæðinu lögðu virkjunarréttindi sín inn í Orkubúið við stofnun þess og því má það ekki verða að framkvæmdum og uppbyggingu sé miðstýrt úr Reykjavík eins og þróunin er í alltof mörgum tilfellum.

Deila grein

04/03/2021

ORKUBÚIÐ ER KJÖLFESTUFYRIRTÆKI Á VESTFJÖRÐUM

Á samráðsgátt stjórnvalda má finna drög Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur ferðamála- iðnaðar og nýsköpunarráðherra að aðgerðum til umbóta á regluverki á sviði raforkumála. Þar er sett fram tillaga um að starfshópur hefji könnun á sameiningu RARIK og Orkubús Vestfjarða. Vitnað er í skýrslu Deloitte og bent á að hagræða megi með sameiningu dreifiveitna, og að í því skyni sé fyrsti kostur að sameina RARIK og Orkubú Vestfjarða, í ljósi þess að þær dreifiveitur eru báðar í ríkiseigu.

Orkubú Vestfjarða var stofnað árið 1978 og var þá sameignarfélag sveitarfélaga á Vestfjörðum og ríkisins en frá árinu 2002 hefur Orkubúið verið í fullu í eigu ríkisins og þar með opinbert hlutafélag. Fyrirtækið býr að áratuga reynslu við virkjun vatnsafls og jarðhita og er eina orkufyrirtækið í landinu sem hefur enn bæði dreifingu og sölu raforku á sömu hendi. Fyrirtækið framleiðir um 60% af orkunotkun Vestfjarða og í pípunum eru áætlanir um frekari virkjanir á Vestfjörðum. Við fyrirtækið starfa um 70 manns bæði við framleiðsluna og dreifikerfið og líta Vestfirðingar á fyrirtækið sem kjölfestufyrirtæki í heimabyggð.

Sérstaða Orkubúsins

Sérstaða OV á raforkumarkaði er sú að ekki hefur verið aðskilið að fullu á milli flutningshluta fyrirtækisins, sem er dreifiveitan, frá framleiðslu, öflun og sölu á raforku. Með breytingu á raforkulögum fyrir nokkrum árum var gerð krafa um aðskilnað samkeppnis- og sérleyfisþáttum raforku. Því má ætla að ef að sameiningu Orkubúsins og RARIK verði þá liggi það fyrir að það þurfi að skipta því upp samkvæmt lögum.

Hvert fer samkeppnishlutinn?

Í 40 ára sögu Orkubúsins hefur verið byggð upp mikil þekking og reynsla innan fyrirtækisins. Ef af sameiningu á dreifihlutanum verður hjá Orkubúinu og RARIK er ljóst að áfram verði starfskraftur staðsettur í fjórðungnum eins og nú er til að reka og viðhalda dreifikerfinu. Hinsvegar er ósvarað hvað verði um samkeppnishlutann sem er öflun og sala raforkunnar. Við í Framsóknarflokknum leggjum höfuðáherslu á að sá hluti verði  áfram í þjóðareigu og að yfirstjórn og starfskraftur þess hluta sé áfram á Vestfjörðum. Ekki síst í ljósi þess  að sveitarfélögin á svæðinu lögðu virkjunarréttindi sín inn í Orkubúið við stofnun þess og því má það ekki verða að framkvæmdum og uppbyggingu sé miðstýrt úr Reykjavík eins og þróunin er í alltof mörgum tilfellum.

Orkusalan ehf er dótturfyrirtæki RARIK og sér um framleiðslu og sölumál innan þess. Það er því í eigu ríkisins en er staðsett í Reykjavík. Ef horft væri til þess að sameina samkeppnishluta Orkubúsins við Orkusöluna þá væri upplagt að flytja það sameiginlega fyrirtæki til Vestfjarðar þar sem þekking og starfskraftar eru til staðar. Með því væri starfsemin einnig nær starfssvæðinu sem er eingöngu útá landsbyggðinni.

Framundan eru því umræður um breytingar á Orkubúinu. Stöndum vörð um hlutverk þess og starfsstöðvar og tryggjum að það geti unnið áfram að meiri raforkuöflun og bættu raforkuöryggi á Vestfjörðum.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður.

Greinin birtist fyrst á bb.is 4. mars 2021.