Kjarasamningar eru sterkasta vopn hins vinnandi manns. Margir hópar semja á tveggja til þriggja ára fresti um kaup og kjör, en það eru til hópar í okkar samfélagi sem semja ekki um kjör sín en það eru aldraðir og öryrkjar. Mér finnst skrýtið að tengja þessa tvo hópa saman, en það er annað mál. Það getur verið erfitt fyrir einstaklinga að verða öryrkjar. Því getur fylgt tekjutap, þunglyndi, depurð, vanlíðan og auðvitað baráttan við kerfið. Margir öryrkjar einangra sig frá samfélaginu því niðurlægingin getur verið mikil. Einstaklingurinn er ekki lengur hluti af vinnustaðarmenningu, hann er stundum ekki hluti af samfélaginu og honum getur liðið eins og honum hafi verið hafnað. Hann kynnir sér reglurnar um atvinnuþátttöku en þá skerðist örorkan. Hann borgar ekki í stéttarfélag og hefur þar af leiðandi ekki aðgang að ýmsum samningsbundnum styrkjum. Flækjustigið fyrir séreignasparnað er mikið. Hátt leiguverð og dýr matarkarfa gerir honum lífið leitt og stundum getur hann ekki náð endum saman um mánaðamót.
Snúum okkur að eldra fólkinu. Margt eldra fólk upplifir það sama og öryrkjar, þ.e.a.s. depurð, einmanaleika og óttann við að ná ekki endum saman um hver mánaðamót. Þó svo að eldra fólk eigi afkomendur getur það verið einmana. Önnur áskorun sem eldra fólk getur verið að takast á við er tölvulæsi. Sumir hafa ekki reynslu af snjalltækjum og jafnvel ekki rafræn skilríki og hvað þá greiðan aðgang að sínum eigin heimabanka. Óttinn við að prófa þessa hluti getur verið mikill. Ef maður hugsar í lausnum þá væri mögulega hægt að nýta þann mannauð sem við höfum t.d. með því að öryrkjar, sem eru ekki á vinnumarkaði, geti heimsótt eldra fólk og kennt því á snjalltækin og fengið þannig laun fyrir, án skerðingar á örorku. Þetta gæti virkað svona:
Öryrki skráir sig í bakvarðasveit í sínu sveitarfélagi og lýsir þannig áhuga á að aðstoða eldra fólk á snjalltæki tvisvar til þrisvar í viku. Þannig væri hægt að auka virkni og félagslega þátttöku bæði öryrkja og eldra fólks. Laun eru greidd út einu sinni á ári í eingreiðslu, t.d. í byrjun desember. Þessi laun myndu alls ekki skerða tekjurnar frá Tryggingastofnun. Það má líta á þetta sem þeirra kjarabót og/eða launahækkun fyrir samfélagslega virkni.
Kjör eldra fólks og öryrkja geta verið misjöfn en þeir sem eru verst settir virðast sitja á hakanum. Þessir hópar geta svo sannarlega tekið mun meiri þátt í samfélaginu því í þeim býr mikil reynsla og þekking og mikilvægt að þeir fái tækifæri til að taka virkan þátt í samfélaginu.
Sævar Jóhannsson, frambjóðandi fyrir Framsókn í Reykjanesbæ.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 20. apríl 2022.