Stóraukin framlög til rannsókna
Enginn hefur efni á því að láta góð tækifæri fram hjá sér fara. Það á sérstaklega við um þann stuðning sem hægt er að veita við hágæða rannsóknarstarfsemi sem skapar íslenskum háskólum, stofnunum og atvinnulífi nýja þekkingu og undirbyggir frekari þekkingarleit hér á landi sem og erlendis ásamt því að stuðla að nýliðun ungra vísindamanna. Það er ljóst að verkefni stjórnvalda á næstu misserum er að skapa störf. Því vill ríkisstjórnin fjárfesta í hugviti og rannsóknum. Þessi áhersla birtist einna helst í aðgerðum ríkisstjórnarinnar vegna COVID-19 með öflugri fjárfestingu í samkeppnissjóðum í rannsóknum; Rannsóknasjóður fékk 575 milljónir kr. viðbótarframlag, Innviðasjóður 125 milljónir, Tækniþróunarsjóður fékk úthlutaðar 700 milljónir, og síðast en ekki síst hefur Nýsköpunarsjóður námsmanna vaxið úr 55 milljónum í 455 milljónir í ár. Einnig voru framlög hækkuð um 500 milljónir kr. til að efla nýsköpun og þróun í innlendri matvælaframleiðslu með stofnun Matvælasjóðs. Með stofnun hans voru Framleiðnisjóður landbúnaðarins og AVS-rannsóknasjóður til að auka verðmæti sjávarfangs sameinaðir. Öll þessi skref sem tekin hafa verið eru til þess fallin að auka verðmætasköpun.Með þessum fjárfestingum náum við til mannauðs, með auknum styrkjum og atvinnutækifærum. Nýsköpunarsjóður námsmanna styrkir verkefni þar sem ungir vísindamenn hafa fengið sín fyrstu kynni af þátttöku í vísindastarfi sem kveikt hefur áhuga til framtíðar. Þetta er gert til að búa til ný tækifæri og virkja þekkingarsköpun. Þegar tilkynnt var um aukafjárveitingu til Nýsköpunarsjóðs fimmfölduðust umsóknir í sjóðinn og verður því fjármagni útdeilt til námsmanna á allra næstu dögum.
Rannsóknir eru grundvöllur nýsköpunar og fjölbreytts efnahagslífs sem eru þjóðfélaginu nauðsynleg til að tryggja hagvöxt til framtíðar. Sjaldan hefur verið skýrara en akkúrat nú hve samkeppnishæfni og styrkur íslensks þekkingarsamfélags skiptir okkur miklu máli. Heimsfaraldur hefur sýnt vel hve mikið traust almenningur á Íslandi ber til vísindanna. Slíkt traust er ekki sjálfgefið og það þarf að styðja með upplýstri ákvarðanatöku á öllum sviðum. Samstarf opinberra aðila, rannsóknarstofnana og fyrirtækja um viðbrögð vegna þessa ástands hafa skilað okkur skjótri og farsælli niðurstöðu, jafnframt því að byggja upp þekkingu um sjúkdóminn sjálfan sem þegar hefur vakið mikla og verðskuldaða athygli á heimsvísu. Íslenskir rannsóknar- og vísindamenn hafa unnið mikið þrekvirki á síðustu vikum. Það er ljóst að til að stuðla að hagvexti til framtíðar þarf að efla tæknina með vísindum og nýsköpun. Mikilvægt er að skapa framúrskarandi aðstæður til rannsóknar- og nýsköpunarstarfs til að fyrirtækin í landinu sjái hag sinn í að fjárfesta í þekkingarsamfélagi.
Nýsköpun
Nýsköpun og hvers konar nýting hugvits er mikilvægur grunnur fjölbreytts og sjálfbærs atvinnulífs, sterkrar samkeppnisstöðu og hagvaxtar. Ekki síst í ljósi þeirra miklu þjóðfélagsumbreytinga sem eru og munu eiga sér stað á komandi árum. Ungt fólk er frjótt í hugsun og fyrirtæki hafa verið tilbúin til að fjárfesta í þeim með aðstoð Nýsköpunarsjóðs námsmanna. Vinna á vegum Nýsköpunarsjóðs hefur verið vettvangur fyrirtækja til að mynda tengsl við nemendur og oft hafa þau tengsl leitt til atvinnutilboða að námi loknu. Sjóðurinn er því einnig ákjósanlegur vettvangur fyrir nemendur til að kynnast framsæknustu fyrirtækjum og stofnunum landsins.Fjármögnunar- og rekstrarumhverfi nýsköpunarfyrirtækja hefur verið í mikilli þróun hér á landi síðustu ár. Mörg jákvæð skref hafa verið stigin til að efla og styðja við þennan geira hér á landi. Ríkisstjórnin sýndi vilja í verki þegar 2,3 milljarðar kr. voru veittir til eflingar nýsköpunar og þróunar. Þar munar mest um að lagt er til að framlag til Kríu, sprota- og nýsköpunarsjóðs, hækki um 1.150 millj. kr. Markmið sjóðsins er að efla vöxt og samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs með því að stuðla að virku fjármögnunarumhverfi fyrir sprota- og nýsköpunarfyrirtæki.
Þá hafa fyrirtækin í landinu einnig eflt nýsköpun og verið hreyfiafl framfara. Því var brýnt að hækka endurgreiðslur til þeirra upp í allt að 35% og þak vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar var hækkað í 1.100 milljónir króna. Áhersla á þróun og nýsköpun skilar sér margfalt til samfélagsins. Starfsumhverfi fyrirtækja þarf að vera hvetjandi og þau þurfa að vera í stöðu til að fá öfluga einstaklinga til liðs við sig.
Menntun er undirstaðan
Eitt er það sem má ekki gleymast: Menntakerfið okkar hefur staðist eina stærstu þolraun sem það hefur tekist á við. Skólunum okkar var haldið starfandi á meðan faraldurinn náði hámarki. Hlúð var að velferð nemenda og reynt að tryggja eins vel og unnt var að þeir gætu náð settum markmiðum. Ljóst er að menntakerfið okkar er afar sterkt.Þrátt fyrir að faraldurinn sé í rénun hér á landi ætlum við að halda okkar striki, sækja fram og efla alla menntun í landinu. Umfangsmikil vinna í mennta- og menningarmálaráðuneytinu hefur átt sér stað til að tryggja að menntakerfið geti tekið á móti sem flestum sem vilja auka þekkingu sína og menntun. Við ætlum að auka fjárveitingar til verk- og tæknigreina og tryggja að háskólastigið geti mætt þeirri eftirspurn sem verður til vegna stöðunnar. Það er sannkallað fagnaðarefni að sjá þennan mikla vöxt í verk- og tæknigreinum enda hefur það verið markmið í langan tíma að gera betur þar og það er að takast. Við munum einnig leggja mikla áherslu á framhaldsfræðslu og styrkja íslenskunám fyrir innflytjendur.
Markmið þessara aðgerða er að styrkja færni íslensks efnahagslífs, sem lengi hefur einkennst af færnimisræmi á vinnumarkaði. Þessu ætlum við að breyta og styrkja vinnumarkaðinn.
Hér á landi eru einnig mörg rannsóknasetur sem vinna með yngri skólastigum. Setrin hafa lagt ríka áherslu á miðlun rannsókna með ýmsum hætti fyrir utan birtingu vísindagreina, t.a.m. með fyrirlestrahaldi, viðburðum og útgáfu fyrir almenning sem er hluti þeirrar samfélagstengingar sem setrin leggja svo ríka áherslu á. Starfsemi setranna er lyftistöng fyrir þau samfélög sem þau starfa í. Það er ástæða til að fagna auknu tæknilæsi, sem styður við jákvætt og uppbyggilegt skólastarf á öllum skólastigum. Vísindalæsi og aukinn orðaforði íslenskra barna er lykillinn að því að búa til vísindamenn framtíðarinnar.
Samstarf um klasastefnu
Brýnt er að móta opinbera klasastefnu sem felur í sér að efla stoðkerfi atvinnulífsins á landsvísu í samvinnu við rannsóknar- og menntastofnanir, sveitarfélög og aðra hagsmunaaðila, eins og þingsályktun nr. 27/50 kveður á um. Með klasastefnu er fjármunum ráðstafað markvissar og eflir samvinnu, nýsköpun, hagsæld og samkeppnishæfni. Klasasamstarf hefur í auknum mæli verið nýtt til nýsköpunar og atvinnuuppbyggingar um allan heim og til að efla samkeppnishæfni fyrirtækja, atvinnugreina, landsvæða og þjóða. Mikil áhersla er lögð á nýsköpun í nútímaklasastjórnun enda skiptir nýsköpun sköpum í langtímauppbyggingu atvinnugreina.Íslendingar hafa ekki látið sitt eftir liggja þegar kemur að klasasamstarfi eða nýsköpun. Hér hafa sprottið upp sjávarklasi, jarðvarmaklasi og ferðaklasi. Fólk um allan heim nýtur góðs af íslensku hugviti, rannsóknum, þróun og þekkingu. Heilsuvörur sem byggjast á nýtingu sjávarafurða og líftækni. Háþróaðir gervifætur og hátæknigróðurhús. Svo fátt eitt sé nefnt. Mikilvægt er að styðja enn frekar við nýsköpun og fyrirtækin. Nýsköpun og blómlegt efnahagslíf haldast í hendur og styrkja samkeppnisstöðu landsins til framtíðar.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Willum Þór Þórssson, alþingismaður og formaður fjárlaganefndar Alþingis.