Categories
Greinar

Raunhæft val á húsnæðismarkaði

Deila grein

06/10/2014

Raunhæft val á húsnæðismarkaði

Elsa-Lara-mynd01-vefurÖrugg búseta skiptir okkur öll máli sama hvort við eigum eða leigjum húsnæði. Við viljum hafa raunhæft val um hvort við kaupum eða leigjum húsnæði. Því miður höfum við ekki haft þetta val á íslenskum húsnæðismarkaði. Einnig er það miður að stuðningur við búsetuformin hefur verið mjög misskiptur. Unnið er að úrbótum í þessum málaflokki í ráðuneyti félags – og húsnæðismálaráðherra, Eyglóar Harðardóttur.

Frumvörp í vinnslu

Þessa dagana er unnið hörðum höndum að gerð frumvarpa er varða húsnæðismarkaðinn, má þar nefna frumvörp er varða húsnæðisbætur, húsnæðismál, húsnæðissamvinnufélög og breytingar á húsaleigulögum. Frumvörpin eru byggð á tillögum Verkefnisstjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála, sem skilaði af sér hugmyndum til ráðherra í vor. Verkefnisstjórnin var með víðtækt samráð í gegnum alla vinnuna, við alla þá aðila er koma að þessum málaflokki.

Undanfarin ár hafa margir starfshópar verið að störfum og rætt húsnæðismál og úrbætur í þeim efnum. Ótal skýrslur hafa verið skrifaðar og ýmsar góðar hugmyndir komið fram. Það er hins vegar fyrst núna, sem farið er að skrifa frumvörp þessa efnis og er vinnan á lokametrunum. Engin drög að frumvörpum voru til, þar sem taka átti á þessum stóra og mikilvæga málaflokki.

Það er því óhætt að halda því fram að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, sé að stíga stór skref í átt að bættu húsnæðiskerfi, fyrir alla landsmenn.

Húsnæðisbætur

Unnið er að breytingum á vaxtabóta – og húsaleigubótakerfinu. Fyrirhugað er að sameina bæði kerfin í nýtt stuðningskerfi, húsnæðisbætur. Í nýju kerfi mun umfang stuðningsins m.a. taka mið af fjölskyldustærð og efnahag heimilanna, óháð búsetuformi. Unnið er að gerð frumvarps þessa efnis og stefnt er að því að leggja það fram á haustþingi.

Húsnæðismál

Unnið er að endurskipulagningu húsnæðismála og að gerð húsnæðisstefnu. Þar skal tilgreina hvert félagslegt hlutverk stjórnvalda eigi að vera á húsnæðismálamarkaði. Jafnframt skal skýra stefnu stjórnvalda er varðar húsnæðislán og hvaða lánaform verða í boði á markaðnum. Nauðsynlegt er að marka skýrar tillögur sem tryggi að jafnræði verði í lánveitingum til húsnæðiskaupa eða bygginga, um land allt. Unnið er að gerð frumvarps þessa efnis og stefnt er að því að leggja það fram á haustþingi.

Frumvörp sem koma fram á vorþingi

Unnið er að því að efla lagaumgjörð húsnæðissamvinnufélaga þannig að þau falli vel að nýju    framtíðarskipulagi húsnæðismála. Jafnfram er unnið að endurskoðun húsaleigulaga með það að markmiði að treysta umgjörð leigumarkaðar og efla úrræði leigusala og leigutaka. Vinnsla þessara mála er í fullum gangi og vinnsla frumvarpanna komin langt á leið. Stefnt er að því að koma þeim inn til þinglegrar meðferðar strax á vorþingi.

Komum málunum í gegn

Nauðsynlegt er að samstaða verði í þinginu að koma þessum málum í gegn. Það væri afar jákvætt fyrir okkur öll, sama hvaða búsetuformi við búum í. Í þessum frumvörpum munum við sjá skýra stefnu um jafnan stuðning við mismunandi búsetuform, reglur um lækkun leiguverðs, hvata til að fjölga leiguíbúðum og lagaumgjörð um bætt lánaumhverfi, neytendum í hag. Þetta eru stórir og mikilvægir þættir er varða heimilin í landinu.

Elsa Lára Arnardóttir

Greinin birtist í DV 3. október 2014.

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.