Þrjátíu ára afmæli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er fagnað um þessar mundir. Með þeim mikilvæga sáttmála sammæltust þjóðir um að börn nytu á eigin forsendum ákveðinna réttinda og er hann sá mannréttindasamningur sem hefur verið staðfestur af flestum þjóðum heimsins. Barnasáttmálinn var fullgiltur fyrir Íslands hönd árið 1992 sem felur í sér að Ísland er skuldbundið að þjóðarétti til að virða og uppfylla ákvæði samningsins.
Stuðningur við innleiðingu Barnasáttmálans
Til þess að tryggja að börn njóti þeirra réttinda sem sáttmálinn kveður á um þarf ekki hvað síst að hafa í huga aðstæður í nærumhverfi barna á degi hverjum. Á heimilum þeirra, í skólum og hvar sem þau dvelja. Í ljósi þess hafa félagsmálaráðuneytið og UNICEF á Íslandi gert samning með það fyrir augum að tryggja aðgengi allra sveitarfélaga að stuðningi við innleiðingu Barnasáttmálans. Þessi stuðningur er afar mikilvægur enda gegna sveitarfélögin mikilvægu hlutverki í lífi barna á Íslandi og annast stærstan hluta þeirrar þjónustu sem hefur bein áhrif á þeirra daglega líf. Íslensk sveitarfélög hafa sýnt í verki mikinn áhuga á að rækja þetta hlutverk sitt. Það var mér því sönn ánægja að geta í tilefni af þrjátíu ára afmæli Barnasáttmálans undirritað samkomulag um aukinn stuðning við þá góðu vinnu sem þar fer fram. Með slíku samstilltu átaki skipar Ísland sér í fremstu röð þeirra ríkja sem hvað best standa vörð um réttindi barna.
Stjórnvöld taki aukið mið af sjónarmiðum barna
Ákvörðun um að innleiða Barnasáttmálann felur í sér viðurkenningu á að þekking og reynsla barna sé verðmæt og að stuðla eigi að því að efla þátttöku barna og ungmenna í samfélaginu og leitast eftir og nýta reynslu þeirra og viðhorf. En ef við ætlum okkur raunverulega að styrkja hlutverk barna og ungmenna í samfélaginu og tryggja þátttöku þeirra við stefnumótun og ákvarðanatöku þurfum við að ganga lengra en að gefa börnum orðið við hátíðleg tækifæri. Við þurfum skýrar breytingar sem tryggja samstarf við börn og að raddir þeirra heyrist, ekki bara í málum er þau varða heldur öðrum líka. Við þurfum að hlusta á tillögur þeirra og sjónarmið, taka þær alvarlega og gera að veruleika.
Að skapa barnvænt samfélag sem gerir börnum kleift að vera raunverulegir þátttakendur er eitthvað sem við hljótum öll að vera sammála um að sé af hinu góða. En að fá börn raunverulega að borðinu er ekki alveg einfalt mál. Eins að sjá til þess að við það sitji öll börn, ekki aðeins þau með sterkustu raddirnar, og að þau séu þar á eigin forsendum en ekki á forsendum fullorðinna.
Börn búa yfir sérstakri reynslu og þekkingu sem getur verið mismunandi eftir aldri þeirra og aðstæðum. Á grundvelli þeirrar reynslu hafa þau skoðanir og hugmyndir á því hvernig samfélagið gæti verið betra. Þrátt fyrir það er of oft gert lítið úr framlagi barna til umræðu og ákvarðanatöku. Afar margt í stefnu stjórnvalda hefur beint eða óbeint áhrif á líf barna. Samt sem áður er hún að mestu leyti þróuð án tillits til þess hvaða áhrif hún mun hafa á börn og framtíð þeirra. Þátttaka barna í stefnumótun getur leitt til stefnubreytinga og skapað samtal á milli ólíkra aðila. En til þess að reynsla og skoðanir barna hafi raunveruleg áhrif þurfum við að vanda til verka.
Meira samráð við börn og ungmenni í mótun
Ríkisstjórnin samþykkti á fundi í mars síðastliðnum tillögu mína, byggða á tillögum til mín frá stýrihópi stjórnarráðsins í málefnum barna, um að stefnt verði að aukinni þátttöku barna og ungmenna í stefnumótun stjórnvalda sem og tillögu sem felur í sér að allar stærri ákvarðanatökur sem og lagafrumvörp skuli rýnd út frá áhrifum á stöðu og réttindi barna. Þetta var stór ákvörðun og afar mikilvæg. Í maí síðastliðnum fylgdi ég þessum tillögum eftir og skrifaði undir samning við umboðsmann barna um að unnar yrðu tillögur að því hvernig tryggja mætti að þátttaka barna og ungmenna í stefnumótun hér á landi yrði markviss, regluleg og raunveruleg og að sérstaklega yrði hugað að því að öllum börnum og ungmennum væru tryggð jöfn tækifæri til þátttöku, án mismununar. Fljótlega förum við að sjá fyrstu drög að þeim tillögum en mikilvægur þáttur í undirbúningi þeirra er þing barna sem haldið er á vegum umboðsmanns barna í Hörpu í dag og á morgun. Auk barna er þingmönnum, fulltrúum sveitarstjórna, stofnana ríkis og sveitarfélaga, aðila vinnumarkaðarins og frjálsra félagasamtaka sem koma að málefnum barna boðið til þingsins og standa vonir til þess að það verði öflugur vettvangur fyrir samtal og samráð um málefni barna til framtíðar.
Við sem teljumst fullorðin í dag höfum afar takmarkaða þekkingu á reynslu nútímabarna og áhugamálum þeirra. Það er kominn tími til þess að við viðurkennum að börnin eru svo sannarlega sérfræðingar í því að vera börn en ekki við fullorðnu. Okkar hlutverk er að tryggja röddum barna farveg og áhrif og skuldbinda okkur til að hlusta á þær.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 21. nóvember 2019.