Categories
Greinar

Reykjanesið er svæði tækifæranna

Heimsmarkaður fyrir þörunga er stór og fer vaxandi. Samkvæmt skýrslu Report Linker um heimsmarkað fyrir þörunga frá júlí 2020 er áætluð velta árið 2020 fyrir þörungaprótein 912,8 millj. dala og því spáð að hann vaxi í 1,3 milljarða dala árið 2027. Þá kemur einnig fram í skýrslunni að það sé vaxandi eftirspurn eftir matvæla- og drykkjarafurðum sem byggðar eru á þörungum. Efni úr þeim má finna í mörgum matvælategundum, snyrtivörum og iðnaðarvörum eins og málningu, dekkjum o.fl. Á Ásbrú er t.a.m. starfandi öflugt og vaxandi fyrirtæki, Algalíf, sem ræktar smáþörunga. Úr þeim er unnið verðmætt efni, astaxanthin, sem notað er í eftirsótt fæðubótarefni. Vöxtur í þörungaframleiðslu í heiminum er áætlaður um 7,4% á ári til ársins 2024 og að veltan verði um 1,1 milljarður Bandaríkjadala árið 2024 samkvæmt greiningu Sjávarklasans frá nóvember 2019. Í þessari grein liggja mýmörg áhugaverð tækifæri fyrir íslenskt athafnalíf.

Deila grein

12/02/2021

Reykjanesið er svæði tækifæranna

Íslendingar hafa tækifæri til að byggja upp nýjan grænan iðnað á sviði þörungavinnslu. Hér landi eru kjöraðstæður á heimsvísu, hreinn sjór og stór hafsvæði. Fjárfestar eru áhugasamir en lagaumgjörðin og regluverkið er enn ekki nógu gott. Alþingi þarf að skapa trausta umgjörð um þennan iðnað og skapa skýra stefnu. Fyrir Alþingi liggur þingsályktunartillaga þess efnis frá þingflokki Framsóknarflokksins.

Vaxandi markaður

Heimsmarkaður fyrir þörunga er stór og fer vaxandi. Samkvæmt skýrslu Report Linker um heimsmarkað fyrir þörunga frá júlí 2020 er áætluð velta árið 2020 fyrir þörungaprótein 912,8 millj. dala og því spáð að hann vaxi í 1,3 milljarða dala árið 2027. Þá kemur einnig fram í skýrslunni að það sé vaxandi eftirspurn eftir matvæla- og drykkjarafurðum sem byggðar eru á þörungum. Efni úr þeim  má finna í mörgum matvælategundum, snyrtivörum og iðnaðarvörum eins og málningu, dekkjum o.fl. Á Ásbrú er t.a.m. starfandi öflugt og vaxandi fyrirtæki, Algalíf, sem ræktar smáþörunga. Úr þeim er unnið verðmætt efni, astaxanthin, sem notað er í eftirsótt fæðubótarefni. Vöxtur í þörungaframleiðslu í heiminum er áætlaður um 7,4% á ári til ársins 2024 og að veltan verði um 1,1 milljarður Bandaríkjadala árið 2024 samkvæmt greiningu Sjávarklasans frá nóvember 2019. Í þessari grein liggja mýmörg áhugaverð tækifæri fyrir íslenskt athafnalíf.

Súrefnisframleiðendur og stútfullir of næringarefnum

Þegar rætt er um þörunga þá er ekki bara átt við smáþörunga, eins og Algalíf ræktar, heldur einnig þang og þara sem vex villt allt í kringum landið okkar fagra. Yfirheiti þessara merkilegu lífvera, þ.e. þangs, þara og smáþörunga, eru þörungar. Þörungar eru ekki bara næringarrík fæða fyrir skepnur og mannfólk heldur framleiða þeir líka stóran hluta súrefnis jarðar, allavega helming alls súrefnis og sumir vísindamenn segja um 90%. Þörungar hreinsa sjóinn og þá má einnig nýta sem áburð. Sumar smáþörungategundir eru olíuríkar og úr þeim er hægt að framleiða lífeldsneyti sem endurnýtir koltvísýring úr loftinu. Það er því ljóst að sjálfbær öflun þörunga og aukin nýting þeirra getur hjálpað til við að minnka álag á önnur vistkerfi jarðarinnar, draga úr áhrifum loftslagsbreytinga og hafa jákvæð áhrif á vistkerfi hafsins. Við Reykjanesið eru kjöraðstæður fyrir öflun og verkun þangs og þara. Hér eru miklar fjörur, hreinn sjór og mikið pláss. Hér eru svo sannarlega tækifæri fyrir duglegt fólk en löggjafinn þarf að bæta umgjörðina svo að áhugasamir hafi sterkan grunn til að byggja á, ef þeir hyggjast fara út í fjárfestingar á þessu sviði.

Hvernig getum við bætt umgjörðina?

Greinarhöfundur hefur lagt fram þingsályktunartillögu ásamt þingflokki Framsóknar um að umhverfis- og auðlindaráðherra í samvinnu við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra geri aðgerðaáætlun um þörungaræktun sem liggi fyrir eigi síðar en 1. mars 2021. Einnig er kveðið á um að ráðherra leggi fram tillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda hvað varðar þörungarækt eigi síðar en 1. maí 2021. Flutningsmenn telja að sá tímarammi ætti að vera nægilegur enda unnt að líta til fordæma nágrannaþjóða okkar, eins og Færeyja og Noregs, þar sem reynsla er þegar komin á framkvæmd sambærilegra lagaákvæða.

Með því að fjárfesta í menntun, rannsóknum og frumkvöðlafyrirtækjum á þessu sviði getur Ísland skapað sér sess á meðal forystuþjóða í fullnýtingu þangs og þara og ræktunar smáþörunga.

Áfram veginn!

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Hlekkur á tillöguna: althingi.is/altext/151/s/0049.html