Categories
Greinar

Samfélagslegur ávinningur sjókvíaeldis

Deila grein

15/10/2021

Samfélagslegur ávinningur sjókvíaeldis

Í dag ef­ast fáir ef nokkr­ir um mik­il­vægi fisk­eld­is sem at­vinnu­grein­ar hér á landi. Fjár­fest­ing upp á tugi millj­arða króna ligg­ur í grein­inni og frek­ari fjár­fest­ing bíður eft­ir leyf­um til rekstr­ar. Útflutn­ings­verðmæti eld­islax juk­ust um 29% á milli ára og fór vægi hans í 70% út­flutn­ings­verðmæt­is eldisaf­urða á ár­inu. Nú er svo komið að út­flutn­ing­ur á eld­islaxi skil­ar næst­mest­um verðmæt­um allra fisk­teg­unda sem flutt­ar eru frá Íslandi.

Það er skemmti­leg staðreynd sem kom fram á góðum fund­um Vest­fjarðastofu um fisk­eldi nú í sept­em­ber að 3% af út­flutn­ings­verðmæt­um Íslands verða til í 1.500 fer­metra slát­ur­húsi á Bíldu­dal. Sam­fé­lög­in sem hýsa þessa vax­andi at­vinnu­grein mega hafa sig alla við að tryggja þá innviði sem þurfa til að mæta þörf­um og halda þræði í upp­bygg­inga­ferl­inu. Upp­bygg­ing á innviðum er grund­völl­ur að vexti grein­ar­inn­ar og sam­eig­in­leg­um ábata.

Fisk­eld­is­sjóður­inn

Fisk­eld­is­sjóður á sér stoð í lög­um sem voru samþykkt vorið 2019 um töku gjalds vegna fisk­eld­is í sjó og fisk­eld­is­sjóð. Þar er gert ráð fyr­ir að þriðjung­ur tekna af gjald­töku af fisk­eldi renni á kom­andi árum í Fisk­eld­is­sjóð sem sveit­ar­fé­lög geta sótt í til innviðaupp­bygg­ing­ar. Á dög­un­um var út­hlutað fyrstu greiðslum úr fisk­eld­is­sjóði og var til skipt­anna 105 m. kr. sem út­hlutað var út frá um­sókn­um sveit­ar­fé­laga þar sem sjókvía­eldi er stundað.

Þarna hefst kapp­hlaup um hver eigi bita­stæðustu um­sókn­ina en mik­il vinna ligg­ur á bak við hverja um­sókn. Þá eru sveit­ar­fé­lög­in í mis­jafnri stöðu til þess að vinna um­sókn­ir. Tvö sveit­ar­fé­lög á Vest­fjörðum fengu sam­tals 34 m. kr. og 70 m. kr. fóru til Aust­fjarða, þrátt fyr­ir að meiri­hluta eldisaf­urða verði til á Vest­fjörðum. Það er ljóst út frá þess­ari út­færslu að sveit­ar­fé­lög geta ekki gert raun­hæfa fjár­hags­áætl­un eða fram­kvæmda­áætl­un með hliðsjón af starf­semi at­vinnu­grein­ar­inn­ar eins og hægt er að gera út frá öðrum grein­um sem stundaðar eru á svæðinu.

Brýnt að end­ur­skoða gjald­töku­heim­ild­ir

Í ljósi þess­ar­ar reynslu verður því að segj­ast að þessi út­færsla sem gerð var varðandi fisk­eld­is­sjóð árið 2019 voru mis­tök. Það er best að viður­kenna það strax og bretta upp erm­ar. Þörf er á að yf­ir­fara laga- og reglu­gerðaum­hverfi gjald­töku í fisk­eldi og sér­stak­lega það sem snýr að sveit­ar­fé­lög­um þar sem sjókvía­eldi er stundað. Það þarf ekki að snúa að auk­inni gjald­töku held­ur þarf að tryggja að tekj­ur af slíkri gjald­töku standi und­ir nauðsyn­leg­um verk­efn­um þeirra sveit­ar­fé­laga sem standa næst eld­inu.

Sveit­ar­fé­lög eiga ekki að þurfa að ganga bón­leið í sam­keppn­is­sjóð til að fjár­magna upp­bygg­ingu sem nauðsyn­leg er til þess að há­marks­ábati af fisk­eldi skili sér til sam­fé­lag­anna held­ur verða stjórn­völd að tryggja sann­gjarna dreif­ingu þess­ara tekna.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 15. október 2021.