Í dag efast fáir ef nokkrir um mikilvægi fiskeldis sem atvinnugreinar hér á landi. Fjárfesting upp á tugi milljarða króna liggur í greininni og frekari fjárfesting bíður eftir leyfum til rekstrar. Útflutningsverðmæti eldislax jukust um 29% á milli ára og fór vægi hans í 70% útflutningsverðmætis eldisafurða á árinu. Nú er svo komið að útflutningur á eldislaxi skilar næstmestum verðmætum allra fisktegunda sem fluttar eru frá Íslandi.
Það er skemmtileg staðreynd sem kom fram á góðum fundum Vestfjarðastofu um fiskeldi nú í september að 3% af útflutningsverðmætum Íslands verða til í 1.500 fermetra sláturhúsi á Bíldudal. Samfélögin sem hýsa þessa vaxandi atvinnugrein mega hafa sig alla við að tryggja þá innviði sem þurfa til að mæta þörfum og halda þræði í uppbyggingaferlinu. Uppbygging á innviðum er grundvöllur að vexti greinarinnar og sameiginlegum ábata.
Fiskeldissjóðurinn
Fiskeldissjóður á sér stoð í lögum sem voru samþykkt vorið 2019 um töku gjalds vegna fiskeldis í sjó og fiskeldissjóð. Þar er gert ráð fyrir að þriðjungur tekna af gjaldtöku af fiskeldi renni á komandi árum í Fiskeldissjóð sem sveitarfélög geta sótt í til innviðauppbyggingar. Á dögunum var úthlutað fyrstu greiðslum úr fiskeldissjóði og var til skiptanna 105 m. kr. sem úthlutað var út frá umsóknum sveitarfélaga þar sem sjókvíaeldi er stundað.
Þarna hefst kapphlaup um hver eigi bitastæðustu umsóknina en mikil vinna liggur á bak við hverja umsókn. Þá eru sveitarfélögin í misjafnri stöðu til þess að vinna umsóknir. Tvö sveitarfélög á Vestfjörðum fengu samtals 34 m. kr. og 70 m. kr. fóru til Austfjarða, þrátt fyrir að meirihluta eldisafurða verði til á Vestfjörðum. Það er ljóst út frá þessari útfærslu að sveitarfélög geta ekki gert raunhæfa fjárhagsáætlun eða framkvæmdaáætlun með hliðsjón af starfsemi atvinnugreinarinnar eins og hægt er að gera út frá öðrum greinum sem stundaðar eru á svæðinu.
Brýnt að endurskoða gjaldtökuheimildir
Í ljósi þessarar reynslu verður því að segjast að þessi útfærsla sem gerð var varðandi fiskeldissjóð árið 2019 voru mistök. Það er best að viðurkenna það strax og bretta upp ermar. Þörf er á að yfirfara laga- og reglugerðaumhverfi gjaldtöku í fiskeldi og sérstaklega það sem snýr að sveitarfélögum þar sem sjókvíaeldi er stundað. Það þarf ekki að snúa að aukinni gjaldtöku heldur þarf að tryggja að tekjur af slíkri gjaldtöku standi undir nauðsynlegum verkefnum þeirra sveitarfélaga sem standa næst eldinu.
Sveitarfélög eiga ekki að þurfa að ganga bónleið í samkeppnissjóð til að fjármagna uppbyggingu sem nauðsynleg er til þess að hámarksábati af fiskeldi skili sér til samfélaganna heldur verða stjórnvöld að tryggja sanngjarna dreifingu þessara tekna.
Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 15. október 2021.