Brýnt er að hraða uppbyggingu í vegamálum og öðrum samgönguinnviðum bæði með nýjum framkvæmdum og viðhaldi. Ríkisstjórnin ætlar á næstu árum að bæta enn við fjárframlög til vegaframkvæmda og taka á uppsöfnuðum vanda sem blasir við hringinn í kringum landið. Í fjögurra ára samgönguáætlun sem samþykkt var á Alþingi í október í fyrra voru áætlaðar framkvæmdir fyrir um 13 milljörðum krónum meira en þær fjárheimildir sem Alþingi samþykkti. Þessi munur á milli samgönguáætlunar og fjárheimilda hefur minnkað og er nú kominn í rúma 7 milljarða. Eigi að síður þá þarf samgönguáætlun að vera í takt við þær fjárheimildir sem eru til umráða hverju sinni. Ljóst er að aukin fjárframlög eru nauðsynleg enda verkefnin brýn og því er mikilvægt að ákveðinn fyrirsjáanleiki sé til staðar sem verður tryggður með að samhljómur verði á milli samgönguáætlunar og fjármálaáætlunar.
Ný samgönguáætlun
Almenn umræða um samgöngumál er nauðsynleg og því er gott þegar þau eru rædd af hreinskilni og ástríðu í hverju byggðarlagi. Því er skiljanlegt að umræðan sé hvað hressilegust þegar fram kemur annars vegar samgönguáætlun og hins vegar fjárlagafrumvarp og menn sjá dæmið ekki ganga alveg upp. Samræming þessara áætlana er því forgangsmál.
Í fyrsta lagi er vinna nú að hefjast við nýja samgönguáætlun sem ætlun er að leggja fram á Alþingi á nýju ári. Horfa þarf til umferðaröryggis, umferðarþunga, vinnusóknarsvæða og þensluáhrifa.
Í öðru lagi verða nýjar línur lagðar samhliða henni í fjármálaáætlun fyrir næstu ár kjörtímabilsins og líta þær dagsins ljós í apríl.
Í þriðja lagi þurfa báðar þessar áætlanir síðan að vera í takt við þær fjárheimildir sem Alþingi er tilbúið að samþykkja.
Samgönguáætlun á ekki að vera óskalisti í aðdraganda kosninga heldur raunsæ og tímasett áætlun um samgöngukerfið sem er lífæð hverrar þjóðar.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra
Greinin birtist í Morgunblaðinu 22. desember 2017