Nú hillir undir að ný lög um menntasjóð námsmanna verði samþykkt á Alþingi. Óhætt er að segja að um stærsta hagsmunamál stúdenta síðustu áratugi sé að ræða. Í umræðum um málið á Alþingi í vikunni mátti heyra að þingmenn allra flokka töldu nýja frumvarpið mikið framfaraskref í meginatriðum, þó svo að sumir hverjir vildu breyta einstaka liðum þess. Það var ánægjulegt að heyra þá þverpólitísku samstöðu sem hefur skapast um málið.
Löng fæðing
Núgildandi lög um LÍN eru frá árinu 1992. Frumvarp um menntasjóð hefur verið lengi í fæðingu en núgildandi lög um Lánasjóð íslenskra námsmanna eru frá árinu 1992. Á undanförnum árum hafa verið lögð fram tvö frumvörp til heildarlaga um Lánasjóð íslenskra námsmanna, vorið 2013, og 2016. Við gerð þessa frumvarps voru athugasemdir sem bárust við bæði frumvörpin hafðar til hliðsjónar. Leitast var við að koma til móts við þau sjónarmið.
Réttlátara kerfi
Nýr menntasjóður námsmanna felur í sér aukið jafnrétti og gagnsæi í námsaðstoð ríkisins, fjárhagsstaða námsmanna verður betri og skuldastaða að námi loknu ræðst síður af fjölskylduaðstæðum. Námslán verða greidd út mánaðarlega, ekki tvisvar á ári eins og nú er og hætt verður að velja um verðtryggð eða óverðtryggð lán. Endurgreiðsla hefst ári eftir að námi lýkur sem mun minnka greiðslubyrði lánþega. Rúmlega 90 prósent lánþega munu koma betur eða jafn vel út úr nýja kerfinu.
Styrkur með börnum
Meðal nýmæla í frumvarpinu er að sérstakur stuðningur fæst nú með börnum, skattfrjáls styrkur – ekki lán! Í fráfarandi kerfi voru sérstök lán veitt vegna framfærslu barna og voru foreldrar í námi því skuldugri en barnlausir við námslok. Fjölskylduaðstæður mega aldrei koma í veg fyrir möguleika til menntunar. Sambærilegur stuðningur verður fyrir meðlagsgreiðendur. Um gríðarlegt jafnréttismál er að ræða. Við gildistöku verður Ísland fyrsta landið í heiminum til þess að viðurkenna foreldrajafnrétti með þessum hætti og horfa hin norrænu löndin nú til þessara breytinga hjá okkur.
Engir ábyrgðarmenn
Námsmenn eygja nú langþráða grundvallarbreytingu á stuðningskerfi sínu. Ef fólk lýkur prófgráðu á tilgreindum tíma, þá getur það fengið styrk í formi 30% niðurfærslu höfuðstóls námsláns við námslok. Með þeim kerfisbreytingum má gera ráð fyrir bættri námsframvindu námsmanna sem mun stuðla að betri nýtingu fjármuna í menntakerfinu og aukinni skilvirkni í framtíðinni. Við gildistöku laganna falla niður ábyrgðir ábyrgðarmanna á námslánum niður ef lánþegi er í skilum við LÍN og ekki á vanskilaskrá.
Frumvarp um menntasjóð er í samræmi við það sem gengur og gerist annars staðar á Norðurlöndum með gegnsæjum beinum styrkjum og sjálfbæru lánakerfi.
Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Suðurkjördæmi.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 30. maí 2020.