Categories
Fréttir

Alþingi sem fjölskylduvænan vinnustað

Deila grein

27/05/2020

Alþingi sem fjölskylduvænan vinnustað

Fréttablaðið greinir frá að þingsályktunartillaga sex þingmanna Framsóknar um „Alþingi sem fjölskylduvænan vinnustað,“ hafi verið tekin fyrir hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis í gær. En með henni yrði þingforseta falið að skipa þverpólitískan starfshóp til að endurskoða þingsköp og skila tillögum um breytingar fyrir árslok.

„Það sem vakti fyrir okkur var að vekja athygli á stöðu einstaklingsins inni á þinginu og vinnulaginu,“ segir Ásgerður K. Gylfadóttir, varaþingmaður og hjúkrunarfræðingur, sem er fyrsti flutningsmaður tillögunnar. „Alþingi er mjög óútreiknanlegur vinnustaður. Það er mun meira skipulag á þingstörfum víða erlendis og einstaklingar sem þar starfa geta skipulagt sig fram í tímann.“

Þingfundir hefjast gjarnan síðdegis og geta staðið fram á kvöld, fram á nætur í sumum tilvikum. Þingstörf geta farið alveg úr skorðum þegar langar umræður fara fram um einstaka mál. Þá hefur verið mikil umræða um hið svokallaða málþóf, sem notað er til að tefja framgöngu mála.

„Þegar til dæmis orkupakkamálið var til umræðu þá talaði fólk endalaust. Auðvitað þarf fólk að hafa tíma til að koma sínum skoðunum á framfæri, en það er hægt að hafa skipulag í kringum þetta þannig að ekki sé hægt að taka þingið í herkví,“ segir Ásgerður.

Tillagan á rætur sínar í samþykkt Landssambands Framsóknarkvenna. Telja þær að bæði vinnutíminn og ófyrirsjáanleikinn henti konum sérstaklega illa. Aðstæður til þingstarfa séu því letjandi fyrir konur. Ásgerður segir að þetta geti líka átt við unga karlmenn, sem vilji eiga sitt fjölskyldulíf, sem og fólk af landsbyggðinni.

Áratugum saman voru karlar í miklum meirihluta á Alþingi og samfélagið þannig uppbyggt að konurnar voru heima með börnin. Með samfélagslegum breytingum hefur skapast þrýstingur á að færa vinnustaði í fjölskylduvænna horf, líka Alþingi.

Þreifingar í þá átt, áttu sér stað eftir bankahrunið 2008, og árið 2011 var reglum um lengd þingfunda breytt. Ásgerður segir tillöguna áframhald af þessari vinnu.

„Mínar hugmyndir eru þær að horfa til nágrannalandanna og sjá hvernig aðstæður eru á þeirra þingum. Síðan nota það besta sem við sjáum, til þess að byggja okkar eigið kerfi upp. Ég er ekki með fyrir fram mótaðar hugmyndir um hvernig þetta ætti að líta út,“ segir hún.

Ásgerður segir að viðbrögðin við tillögunni hafi verið á ýmsan hátt. „Sumir halda að tillagan snúist um að þingmenn geti fengið frí til að sinna gæluverkefnum. Aðrir taka undir að það þurfi að gera breytingar og við þurfum að stíga í takt til að skapa aðstæður fyrir næstu kynslóðir sem hafa nýja nálgun.“

Hér að neðan eru umsagnir er hafa borist stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis vegna þingsályktunarinnar:

https://vod.althingi.is/player/?type=vod&width=512&height=288&icons=yes&file=20200130T102441&start=13872&duration=314&autoplay=false

Heimild: frettabladid.is