Categories
Greinar

Samstaða um betra námslánakerfi

Deila grein

02/06/2020

Samstaða um betra námslánakerfi

Nú hill­ir und­ir að ný lög um mennta­sjóð náms­manna verði samþykkt á Alþingi. Óhætt er að segja að um stærsta hags­muna­mál stúd­enta síðustu ára­tugi sé að ræða. Í umræðum um málið á Alþingi í vik­unni mátti heyra að þing­menn allra flokka töldu nýja frum­varpið mikið fram­fara­skref í meg­in­at­riðum, þó svo að sum­ir hverj­ir vildu breyta ein­staka liðum þess. Það var ánægju­legt að heyra þá þver­póli­tísku sam­stöðu sem hef­ur skap­ast um málið.

Löng fæðing

Nú­gild­andi lög um LÍN eru frá ár­inu 1992. Frum­varp um mennta­sjóð hef­ur verið lengi í fæðingu en nú­gild­andi lög um Lána­sjóð ís­lenskra náms­manna eru frá ár­inu 1992. Á und­an­förn­um árum hafa verið lögð fram tvö frum­vörp til heild­ar­laga um Lána­sjóð ís­lenskra náms­manna, vorið 2013, og 2016. Við gerð þessa frum­varps voru at­huga­semd­ir sem bár­ust við bæði frum­vörp­in hafðar til hliðsjón­ar. Leit­ast var við að koma til móts við þau sjón­ar­mið.

Rétt­lát­ara kerfi

Nýr mennta­sjóður náms­manna fel­ur í sér aukið jafn­rétti og gagn­sæi í námsaðstoð rík­is­ins, fjár­hags­staða náms­manna verður betri og skuld­astaða að námi loknu ræðst síður af fjöl­skylduaðstæðum. Náms­lán verða greidd út mánaðarlega, ekki tvisvar á ári eins og nú er og hætt verður að velja um verðtryggð eða óverðtryggð lán. End­ur­greiðsla hefst ári eft­ir að námi lýk­ur sem mun minnka greiðslu­byrði lánþega. Rúm­lega 90 pró­sent lánþega munu koma bet­ur eða jafn vel út úr nýja kerf­inu.

Styrk­ur með börn­um

Meðal ný­mæla í frum­varp­inu er að sér­stak­ur stuðning­ur fæst nú með börn­um, skatt­frjáls styrk­ur – ekki lán! Í frá­far­andi kerfi voru sér­stök lán veitt vegna fram­færslu barna og voru for­eldr­ar í námi því skuldugri en barn­laus­ir við náms­lok. Fjöl­skylduaðstæður mega aldrei koma í veg fyr­ir mögu­leika til mennt­un­ar. Sam­bæri­leg­ur stuðning­ur verður fyr­ir meðlags­greiðend­ur. Um gríðarlegt jafn­rétt­is­mál er að ræða. Við gildis­töku verður Ísland fyrsta landið í heim­in­um til þess að viður­kenna for­eldra­jafn­rétti með þess­um hætti og horfa hin nor­rænu lönd­in nú til þess­ara breyt­inga hjá okk­ur.

Eng­ir ábyrgðar­menn

Náms­menn eygja nú langþráða grund­vall­ar­breyt­ingu á stuðnings­kerfi sínu. Ef fólk lýk­ur próf­gráðu á til­greind­um tíma, þá get­ur það fengið styrk í formi 30% niður­færslu höfuðstóls náms­láns við náms­lok. Með þeim kerf­is­breyt­ing­um má gera ráð fyr­ir bættri náms­fram­vindu náms­manna sem mun stuðla að betri nýt­ingu fjár­muna í mennta­kerf­inu og auk­inni skil­virkni í framtíðinni. Við gildis­töku lag­anna falla niður ábyrgðir ábyrgðarmanna á náms­lán­um niður ef lánþegi er í skil­um við LÍN og ekki á van­skila­skrá.

Frum­varp um mennta­sjóð er í sam­ræmi við það sem geng­ur og ger­ist ann­ars staðar á Norður­lönd­um með gegn­sæj­um bein­um styrkj­um og sjálf­bæru lána­kerfi.

Silja Dögg Gunn­ars­dótt­ir, alþingismaður Fram­sókn­ar­ í Suðurkjördæmi.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 30. maí 2020.