Categories
Greinar

Samstaða um öfluga byggðastefnu

Deila grein

15/03/2018

Samstaða um öfluga byggðastefnu

Þrátt fyrir að lengi hafi ríkt mikil samstaða um mikilvægi öflugrar byggðastefnu og skilning á því að mikil tækifæri felist í því að landið allt sé í blómlegri byggð hefur örlað á ákveðinni gjá í umræðu um byggðamál, annars vegar á landsbyggðinni og hins vegar á höfuðborgarsvæðinu. Mikilvægi þess að halda landinu öllu í byggð verður seint ofmetið. Til að svo verði þurfa stjórnvöld að tryggja að landsmenn allir hafi aðgang að nauðsynlegri grunnþjónustu, atvinnutækifærum og lífskjörum, óháð efnahag og búsetu. Með öðrum orðum að lífsgæði séu þau sömu um land allt.

Landið allt í blómlegri byggð

Mikilvægt er að stjórnvöld marki sér stefnu og áætlun um það hvernig við ætlum að ná þessum markmiðum. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er víða lögð áhersla á að styrkja byggð og búsetu um allt land. Þegar er hafin vinna við gerð þjónustukorts í samstarfi við sveitarfélögin en því er ætlað að sýna aðgengi landsmanna að allri almennri þjónustu hins opinbera og einkaaðila. Með slíkt tæki í höndunum verður hægt að bæta yfirsýn og þar með skapa grundvöll fyrir aðgerðir til að tryggja íbúum þjónustu og jafna kostnað.

Við ætlum enn fremur að styrkja sóknaráætlanir landshluta. Með því móti erum við að auka enn frekar áhrif heimamanna á þróun byggðamála í hverjum landshluta, eftir atvikum í samstarfi við stjórnvöld og atvinnulíf. Við viljum nýta námslánakerfið og önnur kerfi sem hvata fyrir fólk til að setjast að í dreifðum byggðum. Með því mætti stuðla að aukinni sérfræðiþekkingu vítt og breitt um landið, fjölga framhaldsmenntuðu fólki í dreifðum byggðum og auka fjölbreytni. Menntamálaráðherra hefur sagt að við endurskoðun laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna verði horft til námsstyrkjakerfa að norrænni fyrirmynd. Að endingu er vert að nefna þau áform ríkisstjórnarinnar að ráðuneytum og stofnunum verði falið að skilgreina störf og auglýsa þau án staðsetningar eins og kostur er. Ég tel að það sé raunhæft markmið að 10% allra auglýstra starfa í ráðuneytum og stofnunum þeirra verði án staðsetningar árið 2024. Að því verður unnið ötullega á kjörtímabilinu.

Byggðaáætlun – áskoranir fram undan

Það er mikil ánægja að greina frá því að tillaga að nýrri þingsályktun um stefnumarkandi byggðaáætlun fyrir árin 2018 til 2024 er nú til kynningar í samráðsgátt Stjórnarráðsins. Að mínu mati eru helstu áskoranir á sviði byggðamála nú um stundir að takast á við fækkun íbúa á einstökum svæðum, einhæft atvinnulíf og aðgengi að þjónustu. Þá er það einnig mikil áskorun að tryggja greiðar samgöngur um allt land. Í því sambandi má nefna að stefnt er að því að gera innanlandsflugið að raunhæfari kosti fyrir íbúa landsbyggðarinnar.

Í áætluninni eru 50 aðgerðir sem ætlað er að ná markmiðum ríkisstjórnarinnar í byggðamálum. Áfram verður unnið að því að styrkja verkefnið brothættar byggðir, sem hefur reynst vel á þeim stöðum sem byggðaþróunin hefur verið afar óhagstæð. Þegar er búið að útskrifa tvö byggðarlög en átta byggðarlög eru nú þátttakendur í því verkefni. Þá verður áfram stutt við ljósleiðaravæðingu landsins og tryggt að landfræðilega einangruð og fámenn byggðarlög fái einnig háhraðanettengingu á sama tíma og önnur svæði. Ég vil hvetja landsmenn til að kynna sér þessa metnaðarfullu áætlun og koma umsögnum á framfæri við ráðuneytið, en ég mun tryggja markvissa eftirfylgni með framkvæmd byggðaáætlunar.

Auk beinna aðgerða byggðaáætlunar er mikilvægt að hugað sé að samþættingu byggðamála í öllum málaflokkum, því byggðamál eru í raun viðfangsefni allra ráðuneyta með einhverjum hætti. Því þarf að samhæfa byggðasjónarmið sem mest við alla málaflokka hvort heldur er hjá ríki eða sveitarfélögum. Við þurfum að setja upp byggðagleraugun í hvert skipti sem við leggjum af stað með áætlanir og áform af hverju tagi. Í samgönguáætlun, sem lögð verður fyrir Alþingi á haustmánuðum, verður sérstaklega gerð grein fyrir því hvernig áætlunin styður við stefnu stjórnvalda í byggðamálum.

Til framtíðar

Ég er bjartsýnn fyrir hönd okkar Íslendinga. Við eigum mörg tækifæri og stöndum vel í alþjóðlegum samanburði á mörgum sviðum – en við getum einnig gert betur og ekki síst með því að tryggja að allir landsmenn hafi jöfn tækifæri. Við gerum það með því að hrinda framsækinni byggðaáætlun í framkvæmd.

Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknar

Greinin birtist í Fréttablaðinu 15. mars 2018.