Categories
Greinar

Samstaða um raunverulegar breytingar fyrir börn og fjölskyldur

Deila grein

30/06/2019

Samstaða um raunverulegar breytingar fyrir börn og fjölskyldur

Um­fangs­mik­il vinna stend­ur nú yfir við heild­ar­end­ur­skoðun barna­vernd­ar­laga og end­ur­skoðun á fé­lags­legri um­gjörð og stuðningi við börn á Íslandi. Leiðar­stefið í allri þeirri vinnu er sam­vinna. Sam­vinna þeirra ráðherra rík­is­stjórn­ar­inn­ar og ráðuneyta sem fara með mál­efni barna. Sam­vinna þing­manna úr öll­um flokk­um sem nú sitja á þingi. Sam­vinna og sam­tal fag­fólks og sér­fræðinga af ólík­um sviðum og sam­vinna og sam­tal við not­end­ur kerf­is­ins eins og það er í dag – ekki síst við börn og ungt fólk.

Í bréfi sem var sent út í fe­brú­ar til ríf­lega 600 viðtak­enda sem hafa með mál­efni barna að gera var biðlað til allra þeirra sem hefðu getu og vilja til að leggja sitt af mörk­um að taka þátt í vinn­unni fram und­an. Þar var þeim boðið að sækja fundi hliðar­hópa þar sem ýms­ar áskor­an­ir og sér­tæk verk­efni yrðu rædd. Viðbrögðin létu ekki á sér standa og hafa á annað hundrað þátt­tak­end­ur verið virk­ir í hliðar­hóp­um sem hafa verið starf­rækt­ir í vet­ur og deilt þar dýr­mætri þekk­ingu og reynslu. Þar hef­ur til dæm­is verið fjallað um for­varn­ir og fyr­ir­byggj­andi aðgerðir, sam­tal þjón­ustu­kerfa, skipu­lag og skil­virkni úrræða, nýtt barna­vernd­ar­kerfi og börn í sér­stak­lega viðkvæmri stöðu.

Sam­taka­mátt­ur

20. júní síðastliðinn boðaði ég, Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra, og Svandís Svavars­dótt­ir heil­brigðisráðherra til vinnufund­ar þing­manna­nefnd­ar í mál­efn­um barna þar sem þátt­tak­end­ur hliðar­hóp­anna komu sam­an. Má segja að þar hafi farið fram eins kon­ar upp­skeru­hátíð þar sem vinna vetr­ar­ins var gerð upp og fram­haldið kort­lagt.

Fund­ur­inn var ekki bara merki­leg­ur í ljósi þver­póli­tískr­ar sam­vinnu og aðkomu aðila úr ólík­um kerf­um held­ur var það ekki síður sá andi sem sveif yfir vötn­um sem vakti lukku. Trú­in á að þetta sé hægt. Að sam­an get­um við breytt kerf­inu þannig að það vinni eins og við vilj­um og styðji bet­ur við börn og fjöl­skyld­ur þeirra.

Kerf­is­breyt­inga þörf

Verk­efnið er hins veg­ar ekki auðvelt og mögu­lega er rót­tækra breyt­inga þörf. Meðal þess sem kem­ur fram í niður­stöðum hliðar­hóp­anna er að ein­falda þurfi kerfið eins og það snýr að börn­um. Mik­il­vægt sé að skoða upp­stokk­un þess og sam­ein­ing­ar stofn­ana eða breyt­ing­ar á þeim. Þá þurfi í hví­vetna að skima fyr­ir vís­bend­ing­um um vanda hjá börn­um eða fjöl­skyld­um og meta þörf fyr­ir stuðning tím­an­lega. Tryggja þarf að hægt sé að kalla fram heild­ar­sýn þegar kem­ur að mál­efn­um barna og að börn þurfi ekki að búa við erfiðleika, stóra sem smáa, til lengri tíma.

Það þarf að finna ábyrgð á því að grípa fjöl­skyldu eða barn í nýju og breyttu kerfi og skil­greina hver á að fylgja mál­um eft­ir. Þá þurfa að vera skýr­ir verk­ferl­ar um hvert hlut­verk hvers og eins þjón­ustuaðila sé og hvernig þeir tala sam­an. Má þar nefna skóla, fé­lagsþjón­ustu, heilsu­gæslu og lög­reglu. Eins þarf að gæta þess að börn og fjöl­skyld­ur fái ekki ófull­nægj­andi þjón­ustu vegna þess að ekki er skýrt hver á að borga fyr­ir hana. Þess utan voru kynnt­ar hug­mynd­ir um að leggja niður barna­vernd­ar­nefnd­ir sveit­ar­fé­laga í nú­ver­andi mynd og setja á lagg­irn­ar mun færri fag­skipuð, þverfag­leg svæðisráð.

Vel nestuð til aðgerða

Það er af ýmsu að taka en eft­ir vinn­una í vet­ur og þenn­an af­kasta­mikla vinnufund erum við vel nestuð til und­ir­bún­ings raun­veru­legra aðgerða. Þær munu krefjast breyt­inga og lausna þvert á kerfi og sam­starfs ráðherra. Næsta skref er að und­ir­búa aðgerðaáætl­un þvert á ráðuneyti um hverju þurfi að breyta þegar kem­ur að lög­um og reglu­gerðum og hvaða skref þurfi að stíga þegar kem­ur að hinum ýmsu kerf­is­breyt­ing­um.

Við þurf­um öll að leggja okk­ar af mörk­um í þess­ari vinnu. Hún er í þágu barna og fjöl­skyldna og við erum á réttri leið. Framtíðin býr í börn­un­um.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 29. júní 2019.