Categories
Greinar

Sam­vinn­a eft­ir skiln­að – barn­ann­a vegn­a!

Deila grein

16/08/2022

Sam­vinn­a eft­ir skiln­að – barn­ann­a vegn­a!

Sambandsslit og skilnaðir foreldra eru áfall fyrir börn. Alvarleiki þess konar áfalls og áhrifin af því geta hins vegar verið mjög mismunandi. Það er sérstaklega erfitt þegar illdeilur koma upp milli foreldra og þá geta áhrifin verið alvarleg og langvarandi. Það getur stundum verið flókið að feta stíg samskipta við fyrrum maka þannig að börn verði ekki fyrir slæmum áhrifum. Til þess að aðstoða foreldra sem eru í þessari stöðu þá er nú búið að tryggja framtíð úrræðisins Samvinna eftir skilnað – barnanna vegna (samvinnaeftirskilnad.is), en þar býðst foreldrum ráðgjöf til að draga úr ágreiningi í kjölfar skilnaðar með farsæld barna að leiðarljósi.

Barnið verði hjartað í kerfinu

Í upphafi árs 2020 fór ég til Danmerkur og skrifaði undir samning við danskt fyrirtæki sem býður upp á stafrænar lausnir í ráðgjöf til að draga úr ágreiningi foreldra í skilnaðarferli með farsæld barnanna að leiðarljósi. Úrræðið hafði þegar gefið mjög góða raun í Danmörku og hafði verið skylduferli fyrir foreldra sem skildu. Bæði hafði úrræðið aukið skilning foreldra á því hvernig samskiptum skyldi best háttað og þannig komið börnum til góða en auk þess lá fyrir hversu mikið hafði dregið úr vanlíðan foreldranna sjálfra eftir skilnað, dregið úr þunglyndi, dregið úr veikindadögum frá vinnu, og margt fleira.

Upphaflega var úrræðið sett upp sem tilraunaverkefni í tveimur sveitarfélögum á Íslandi til tveggja ára. Það var síðan útvíkkað til átta sveitarfélaga og er nú í boði á landsvísu. Foreldrum í skilnaðarferli er nú boðið upp á aðgang að rafrænum námskeiðum og félagslegri ráðgjöf hjá sérstökum ráðgjöfum innan sveitarfélaganna. Úrræðið fellur mjög vel að nýjum lögum um farsæld barna sem miða að því að beita sem allra mest snemmbærri aðstoð og fyrirbyggjandi aðgerðum í stað þess að glíma við flóknari vanda síðar meir.

Nær til yfir 800 barna í dag

Nú eru 764 notendur skráðir á stafræna vettvanginn, foreldrar sem eiga að meðaltali 2,1 barn saman, og haldin hafa verið átta námskeið fyrir fagfólk sem hafa veitt 142 aðilum ráðgjafaréttindi á þessu sviði til þess að veita enn frekari aðstoð en stafræni vettvangurinn býður upp á. Yfir 800 börn á Íslandi njóta þar með góðs af því að foreldrar þeirra njóta um þessar mundir leiðsagnar sérfræðinga um algeng mistök sem foreldrar gera í samskiptum í kjölfar skilnaðar. Þá er ótalið hversu jákvæð áhrif slíkt getur haft á foreldrana sjálfa, líðan þeirra og þátttöku í samfélaginu.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.

Greining birtist fyrst á frettabladid.is 13. ágúst 2022.