Categories
Greinar

Sannleikurinn um RÚV

Deila grein

17/12/2014

Sannleikurinn um RÚV

Vigdís HauksdóttirSífellt er klifað á því að stjórnvöld séu að skerða fé til reksturs Ríkisútvarpsins. Aldrei fyrr í sögunni hefur meira fjármagni verði varið í rekstur stofnunarinnar, eins og sjá má á meðfylgjandi grafi.

Í greinargerð frumvarps til laga nr. 23/2013, um Ríkisútvarpið, segir »að rökin fyrir mörkun útvarpsgjalds til Ríkisútvarpsins lúti einkum að því að tryggja stöðugleika fjárveitinga en jafnframt sé eðlilegt að binda þá mörkun ákveðnum skilyrðum til að draga úr sveiflum til lækkunar og hækkunar«. Einnig kemur þar fram að mikilvægt sé talið að tryggja Ríkisútvarpinu fjárhagslegt sjálfstæði að því marki sem unnt er, óháð hinu pólitíska og efnahagslega valdi.

Hér birtist glöggt vilji löggjafans til algjörs aðskilnaðar – að fjárveitingavaldið bindi upphæð útvarpsgjaldsins/»nefskattsins« í lög og skili allri upphæðinni til RÚV, en hafi ekki áhrif á fjárhagslegt sjálfstæði stofnunarinnar með því að ráðstafa gjaldinu til annarra verkefna. Með öðrum orðum að fyrirbyggja freistnivanda stjórnvalda eins og gerðist í tíð síðustu ríkisstjórnar þar sem gjaldinu var ráðstafað í stórum stíl í önnur verkefni. Í fjárlagagerð árið 2013, fyrir fjárlagaárið 2014, var sáttabreytingatillaga að í stað þess að gjaldið fyrir árið 2015 skyldi fara í 17.800 kr. í stað 16.400 kr. eins og gert var ráð fyrir samkvæmt lögunum. Stjórnvöld gáfu stjórnendum RÚV aukið svigrúm að trappa niður reksturinn og um leið að skila gjaldinu öllu og óskiptu til stofnunarinnar.

Nákvæmlega ár er liðið frá þessari þinglegu ákvörðun – að RÚV ætti að miða rekstur sinn við að gjaldið yrði 17.800 kr. Þessu er framfylgt í fjárlagagerðinni nú. Í fjárlögum fyrir árið 2015 er gert ráð fyrir að heildarframlag til RÚV verði 3.498 milljónir og við 2. umræðu fjárlaga var lögð til hækkun um 181,9 milljónir til viðbótar. Ríkið er því að innheimta af skattgreiðendum 3.680 milljónir kr. og færa þær óskertar yfir til stofnunarinnar. Nemur það um 9% hækkun á fjárframlögum ríkisins.

Það eru dylgjur og ósannindi að halda því fram að stjórnarmeirihlutinn sé að skera RÚV niður eins og hrópað er í þinghúsinu, á torgum og í fjölmiðlum. Ég vonast eftir hófstilltri umræðu, umræðu sem byggð er á staðreyndum, sannleika og lagafyrirmælum en ekki tilfinningasemi, blekkingum og ósannindum.

rikisframlag til ruv

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Vigdís Hauksdóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 16. desember 2014

 

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

 

 [/fusion_builder_column][/fusion_builder_row][/fusion_builder_container]