Categories
Greinar

Segið já 26. október – aukinn slagkraftur

Deila grein

21/10/2019

Segið já 26. október – aukinn slagkraftur

Ef sameining Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar verður samþykkt mun nýtt sveitarfélag hafa sterkari rödd og stöðu í samskiptum við ríkisvaldið og í samstarfi sveitarfélaga á landsvísu.

Raunar er það svo að það eitt að hefja formlegar sameiningarviðræður hefur tryggt þessum sveitarfélögum sameiginlega meiri og innihaldsríkari samræður við ráðherra og þingmenn en ég hef áður kynnst á ferli mínum í sveitarstjórn. Með því að kynna skýra framtíðarsýn um stærra, öflugra og samhentara sveitarfélag er meiri von um að fá stuðning við þá uppbyggingu og framþróun á svæðinu. Árangurinn af þessari vinnu má meðal annars sjá í drögum að endurskoðaðri samgönguáætlun sem kynnt var í vikunni.

Það skiptir einnig orðið stöðugt meira máli að þeir sem gefa kost á sér til starfa í sveitarstjórn geti helgað sig þeim verkefnum en sinni ekki hagsmunagæslu íbúanna í hjáverkum meðfram öðrum störfum. Með stærra sveitarfélagi og breyttu skipulagi opnast meiri möguleikar á því að kjörnir fulltrúar geti verið í föstu starfshlutfalli og jafnvel fullu starfi við að þjónusta íbúa sveitarfélagsins og berjast fyrir hagsmunum þeirra. Þannig verður nýtt sveitarfélag með meiri slagkraft en þau sem fyrir eru hvert í sínu lagi.

Utan heimastjórna er gert ráð fyrir að fastanefndir sveitarfélagsins verði færri, fjölmennari og fundi örar en nú tíðkast. Allar þessar breytingar leiða til þess að nefndafólki mun fækka frá því sem nú er, úr ríflega 140 í rúmlega 40, en verkefni þeirra og ábyrgð eykst. Því er í áætlunum ekki gert ráð fyrir að kostnaður minnki heldur verði launakjör fulltrúa í góðu samræmi við ábyrgð þeirra og verkefni.

Um allt þetta má lesa nánar á heimasíðunni svausturland.is og ég hvet alla íbúa til að kynna sér málin, mæta á kjörstað og greiða atkvæði með sameiningu sveitarfélaganna þann 26. október.

Stefán Bogi Sveinsson, forseti bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs.

Greinin birtist fyrst á austurfrett.is 18. október 2019.