Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, var aðalræðumaður á fundi um líffræðilega fjölbreytni sjávar sem Norðurlandaráð stóð fyrir 14. september sl. Líffræðileg fjölbreytni er eitt af þremur áherslumálum formennsku Íslands í Norðurlandaráði á þessu ári. Árið 2018 setti Solberg á laggirnar alþjóðlega leiðtoganefnd um sjálfbært sjávarhagkerfi. Forsætisráðherrann stýrir nefndinni en í henni sitja leiðtogar fjórtán strandþjóða. Markmiðið er að skapa alþjóðlegan skilning á sjálfbærri nýtingu hafsins og góðu ástandi á lífríki þess sem skilar sér í mikilli verðmætasköpun.
Alþjóðlega leiðtoganefndin um sjálfbært sjávarhagkerfi var stofnuð að frumkvæði Norðmanna. Nefndin vill skapa sóknarfæri fyrir sjálfbært sjávarhagkerfi þar sem árangursrík vernd, sjálfbær framleiðsla og sanngjörn velmegun haldast í hendur. Með því að styrkja samband mannsins og hafsins, tengja heilbrigði og auðæfi sjávar, starfa með ýmsum hagsmunaaðilum og nýta sér nýjustu þekkingu vill nefndin stuðla að betri og traustari framtíð fyrir mennina og móður jörð. Nefndin starfar með stjórnvöldum, atvinnulífi, fjármálastofnunum, vísindasamfélaginu og borgaralegu samfélagi.
Í formennskutíð Íslendinga í Norðurlandaráði í ár er ætlunin að beina sjónum að tveimur þáttum sem tengjast líffræðilegri fjölbreytni. Annars vegar er fyrirhugað að virkja ungt fólk á Norðurlöndum þannig að það geti haft áhrif á mótun nýrra alþjóðlegra markmiða um líffræðilega fjölbreytni á árinu 2020. Hinn þátturinn snýr að líffræðilegri fjölbreytni í hafi sem hefur mikið gildi fyrir Ísland og önnur norræn ríki sem eru mjög háð auðlindum hafsins.
Hlustum á unga fólkið
Markmiðið með sameiginlega fundinum var að ræða hlutverk Norðurlanda í vinnunni að sjálfbærri stjórnun sjávarauðlinda og við að tryggja sjálfbært sjávarhagkerfi í framtíðinni á Norðurlöndum og um heim allan. Góð stjórnun hafsins á Norðurlöndum og alþjóðlega er ofarlega á dagskrá Norðurlandaráðs. Formennskulandið Ísland leggur í áætlun sinni áherslu á líffræðilega fjölbreytni hafsins og undirstrikar að hnignun líffræðilegrar fjölbreytni hafi djúpstæð áhrif á þjóðir Norðurlanda sem eru afar háðar auðlindum sjávar.
Í opnunarræðu fundarins greindi ég frá áherslum formennskulandsins Íslands á hafið og líffræðilega fjölbreytni sjávar ásamt hlutverki ungs fólks í að standa vörð um hana. Unga fólkið hefur mjög látið í sér heyra undanfarin ár og krafist þess af valdhöfum – og af okkur öllum – að við breytum hegðun okkar þannig að komandi kynslóðir geti áfram notið þess að búa á jörðinni og notið auðlinda hennar jafnt í hafi sem á landi. Við, í íslensku formennskunni, og félagar okkar í Norðurlandaráði viljum að hlustað verði á þessar raddir, að ákvarðanir verði teknar í samráði við unga fólkið og með gagnsæjum hætti.
Framfarir í verndun fiskistofna
Nú reynir enn meira en áður á sjávarútveginn sem grunnstoð samfélagsins. Hann hefur ekki og hann má ekki bregðast okkur. En við þurfum að gæta að þeirri auðlind sem hann byggist á. Fyrr á öldum héldu menn að fiskistofnar hafsins væru ótæmandi. Þegar erlendir togarar fóru að sækja á Íslandsmið í lok 19. aldar með stórvirkum veiðarfærum sínum áttuðum við Íslendingar okkur á því að svo er ekki.
Miklar framfarir hafa orðið í verndun fiskistofna við Ísland síðan þá. Við höfum líka unnið að því að nýta aflann betur og við erum farin að sækja í fleiri tegundir. Ég gaf nýlega út, ásamt fleirum, bók um íslenska matþörunga. Það er dæmi um fæðu úr hafinu sem mætti nota mun meira en nú er gert. Ofveiði í höfum er enn víða vandamál en á síðustu árum og áratugum höfum við líka orðið meðvituð um aðrar og enn alvarlegri ógnir: Loftslagsbreytingar sem meðal annars valda súrnun sjávar, mengun af ýmsu tagi og eyðilegging búsvæða. Allt hefur þetta áhrif á líffræðilega fjölbreytni.
Breyta ríkjandi hugsun og háttsemi
Norðurlandaráð leggur á árunum 2018-2020 sérstaka áherslu á heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna númer 14: Líf í vatni, þar sem eftirfarandi þættir eru í forgrunni: kolefnislosun frá sjávarútvegi, hlýnun sjávar, súrnun sjávar og öflun frekari þekkingar á þessu sviði, sameiginleg stefnumörkun Norðurlanda um plastúrgang, aðgerðir gegn ofauðgun Eystrasaltsins, samnorrænan gagnagrunn um lífríki sjávar og þátttöku ungs fólks við mótun nýrra markmiða fyrir nýjan samning Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni.
Það er von mín að markmiðin með starfsemi Alþjóðlegu leiðtoganefndarinnar um sjálfbært sjávarhagkerfi verði að veruleika svo sem að hvetja til, þróa og styðja lausnir í þágu heilbrigðis hafsins og auðæfa sjávar og að efla rödd viðkvæmra sjávar- og eyjabyggða svo fátt eitt sé nefnt. Fyrsta skref nefndarinnar er þó það að geta breytt ríkjandi hugsun og háttsemi í heiminum með því að vera háttsettum leiðtogum hvatning til að móta stefnu og aðgerðir í þessum efnum. Þegar það er stigið getum við öll hafist handa við sjálfbæra stjórnun hafsins og sjávarauðlinda.
Silja Dögg Gunnarsdóttir, forseti Norðurlandaráðs.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. september 2020.