Categories
Greinar

Skiptir menntun máli í sjávarútvegi?

Deila grein

03/12/2013

Skiptir menntun máli í sjávarútvegi?

Líneik Anna SævarsdóttirÞegar sérfræðingar í menntamálum spá fyrir um hvers konar hæfni sé mikilvægust í nánustu framtíð er niðurstaðan færni í mannlegum samskiptum og skapandi en jafnframt gagnrýnin hugsun. Auðvitað fylgir svo mikilvægi tæknikunnáttu og læsis, ekki einungis á bókina heldur líka á umhverfið. Þá er samfélagsleg þátttaka og persónuleg ábyrgð einnig lykilfærni. Það er engin spurning að þetta á við í sjávarútvegi eins og annars staðar. Á síðustu árum höfum við í raun séð að þessi færni skiptir máli því þrátt fyrir að heildar aflamagn úr sjó hafi hætt að aukast hefur verðmætaauking haldið áfram með sköpunarkraftinum og því að tengja saman þekkingu á mismunandi sviðum. Þannig er stöðugt unnið að nýsköpun sem byggir á gamalli og nýrri þekkingu okkar Íslendinga á sjávarútvegi.

Menntað vinnuafl þarf að koma eftir fjölbreyttum leiðum í gegnum nám sem er beintengt greininni en ekki síður í gegnum ólíkar námsleiðir á framhalds- og háskólastigi. Það er mikilvægt að bjóða áfram upp á öflugt sérhæft nám s.s. sjávarútvegsfræði, skipstjórn, vélvirkjun, matvælafræði og fiskvinnslu. Þetta er mikilvægt bæði fyrir fólk sem kemur beint til starfa og einnig fyrir þá sem vilja góða þekkingu á greininni sem viðbót eða undirbúning fyrir annað nám. Sjávarútvegurinn þarf einnig á allra handa iðn- og háskólamenntun í öðrum greinum að halda til að þróast áfram s.s. rafvirkjun, tölvunarfræði, verkfræði, hönnun, sagnfræði, markaðsfræði. Í raun er erfitt að sjá fræðigrein sem ekki getur tengst sjávarútvegi á einhvern hátt.

Þeir sem starfa í greininni þurfa að hafa aðgang að fjölbreyttri símenntun, í formi sérhæfðra námskeiða en jafnframt er mikilvægt að hafa góðan aðgang að námi sem skólakerfið býður upp á t.d. í gegnum fjarnám sem mögulegt er að stunda með starfi.

Hvernig má svo efla hið margumrædda samstarf skóla og atvinnulífs? Hvernig verður áhugi vakinn?  Það þarf öflugra upplýsingastreymi í þjóðfélaginu um það sem er að gerast í sjávarútvegi bæði þeim hefðbundna og eins í nýsköpun bæði í greininni sjálfri og þjónustuiðnaði.  Áhugavert væri að byggja upp verkefnabanka tengdan sjávarútvegi á vefnum sem hentar með mismundandi námsefni á grunnskóla og framhaldskólastigi, þar sem finna mætti einfaldar efnafræðitilraunir, söguverkefni, stærðfræðiverkefni og ótal önnur verkefni.  Fræðsla fyrir kennara í framhalds- og grunnskólum væri mikilvæg eftirfylgni við slíkt verkefni. Slík nálgun þar sem sjávarútvegur tengist mörgum námsgreinum er mun vænlegri til að vekja áhuga en sérstök námsgrein um sjávarútveg.  Vettvangsheimsóknir og starfskynningar eru líka mikilvægar þar sem þeim verður við komið.  Þá mætti tvinna saman kynningu á sjávarútvegi og ferðaþjónustu, með áhugaverðum sýningum á nútíma atvinnuháttum.

Á háskólastiginu tel ég aftur á móti skilvirkustu samstarfsfletina liggja í gegnum samstarf um lokaverkefni nemenda, þar er mikilvægt að fólk starfandi við veiðar og vinnslu leggi fram hugmyndir að verkefnum sem ýmist er hægt að vinna innan veggja skólanna eða á vettangi í samstarfi háskóla og fyrirtækja.

Með góðri og fjölbreyttri menntun, þrautseigju og áhuga getum við lengi haldið áfram að skapa meiri verðmæti í sjávarútveginum.

 

Líneik Anna Sævarsdóttir

Greinin birtist í Útvegsblaðinu þar sem þemað var menntun.