Categories
Greinar

Skítug orka og aflátsbréf ESB

Deila grein

04/07/2015

Skítug orka og aflátsbréf ESB

Vigdís HauksdóttirHér á landi er nánast öll raforka framleidd sem græn orka án aðkomu kjarnorkuvera og án kola- og olíubrennslu. Þetta skapar landinu gríðarlega sérstöðu á heimsvísu með áherslu á fullvinnslu vöru hér á landi úr grænni orku. Fyrirtæki með áherslu á umhverfisvernd eru tilbúin að greiða hærra verð fyrir raforku í framleiðslu sína. Íslensk raforkuframleiðslufyrirtæki hafa selt grænar upprunaábyrgðir sínar til fyrirtækja á EES-svæðinu og fengið í staðinn upprunaábyrgðir sem merktar eru kjarnorku, olíu, kolum og gasi. Er það sett í þann búning að kaupandi upprunavottorðs sé að styðja við framleiðslu á endurnýjanlegum orkugjöfum og framleiðslu á grænni orku. Það er nokkuð ljóst að kaupandi upprunavottorðs að grænni orku gerir það til að blekkja og ljúga að kaupanda framleiðsluvörunnar.

Öll þessi blekking og sýndarveruleiki er búinn til af embættismannaelítunni í Brussel eins og loftslagsheimildirnar. Búin eru til »verðmæti« úr engu sem ganga síðan kaupum og sölum en engin eiginleg hlutkennd verðmæti eru á bak við, eins og t.d. í íslenska kvótakerfinu þar sem hlutkennd verðmæti á bak við veiðiheimildirnar eru fiskur sem fer á markað. Mikil pressa er bæði hjá Landsvirkjun og Bretum að færa raforku til Bretlands með sæstreng. Það er ljóst að það er ekki til að fá »græna orku« inn í breska raforkukerfið því þeir í raun gætu sparað sér kapalinn og látið duga að kaupa aflátsbréf. Það er því nokkuð ljóst að það er ekki að reyna að komast yfir hrávöru – orku í þessu tilfelli – og skapa virðisaukandi störf í Bretlandi.

Garðyrkjubændur hafa stigið fram og gagnrýnt þetta harðlega. Þeim er boðið að »kaupa« sig út úr kerfinu af raforkusölum. Er þetta tilboð dæmalaust ósvífið. Þannig eru raforkusalar hér á landi að neyða framleiðendur til að kaupa sig frá skítugum orkuaflátsbréfum til að geta vottað vöru sína græna. Í millitíðinni höfðu þessir aðilar selt grænar upprunaábyrgðir fyrir skítugar og ætla að græða í annað sinn og nú í gegnum íslensk fyrirtæki.

Fyrir ekki svo löngu var mikill innflutningur á þorski frá Rússlandi. Sá fiskur seldist á lægra verði en sá íslenski. Ef sama fyrirkomulag hefði verið í þeim viðskiptum og Evrópubandalagið er með varðandi upprunavottorð á rafmagni þá hefðu íslenskar fiskvinnslur keypt vottorð um að fiskurinn væri ekki rússneskur og selt sem íslenskan til þess að blekkja kaupandann og fá þannig hærra verð. ESB hefur sektað íslensk fyrirtæki fyrir rangar upprunamerkingar á fiski en býr síðan til reglur um brask með uppruna rafmagns. Að falsa upprunavottorð á hráefni er hættulegt og algjörlega óásættanlegt og getur skaðað orðspor okkar til langrar framtíðar. Ég treysti því að iðnaðarráðherra gangi í málið og vindi ofan af þessari vitleysu og ég geri kröfu á íslensk orkufyrirtæki sem nýta okkar dýrmætu auðlindir, og við höfum falið þeim nýtingu á til orkuframleiðslu, að þau gjaldfelli ekki okkar dýrmætustu vöru – íslenska græna orku.

Vigdís Hauksdóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 4. júlí 2015.