Categories
Fréttir

„Geri alvöru úr því að kjósa með fótunum“

Deila grein

06/07/2015

„Geri alvöru úr því að kjósa með fótunum“

Þorsteinn-sæmundssonÞorsteinn Sæmundsson, alþingismaður, fór yfir fréttir af verðhækknum hjá birgjum og smásölufyrirtækjum í störfum þingsins í síðustu viku.
„Undanfarið hefur borið allnokkuð á því að fréttir berast af verðhækkunum bæði hjá birgjum og smásölufyrirtækjum. Það er í sjálfu sér mikið umhugsunar- og rannsóknarefni þar sem helstu viðskiptamyntir eru nú sirka 3% veikari gagnvart krónu en var fyrir ári, þá á ég við evru og Norðurlandamyntirnar, í þeim sem næstliðin missiri hefur ekki verið skilað styrkingu krónu allt að 10–12%. Það virðist einnig koma fram að enn hafi verslunin ekki skilað að fullu þeim lækkunum á sykruðum vörum sem voru ákveðnar á Alþingi um síðustu áramót. Þetta virðist koma fram í verðkönnunum Neytendasamtakanna og ASÍ.
Nú ber svo við að í Morgunblaðinu í morgun segir deildarstjóri hagdeildar Alþýðusambands Íslands, með leyfi forseta:
„Hafi kaupmáttur ekki aukist í febrúar á næsta ári eru forsendur nýgerðra kjarasamninga brostnar.“
Þetta eru alvarleg tíðindi. Ég held að það hljóti að vera þannig að nú þurfi verslunarmenn að hugsa sig um og ég held líka að neytendur í þessu landi þurfi að hugsa sig um. Það vill þannig til sem betur fer að fólk er fúsara til þess en áður að láta skoðanir sínar í ljós. Það hefur ítrekað komið berlega í ljós fyrir utan þetta hús. Nú er kannski kominn tími til þess að íslenskir neytendur láti til sín heyra með svipuðum hætti og geri alvöru úr því að kjósa með fótunum og hunsa þau fyrirtæki sem lengst ganga í hækkunum nú um stundir.“