Það eru válynd veður í heimsmálunum þessa stundina. Það breytir ekki því að það er mikilvægt að halda fókus í landsmálunum. Eitt er það mál sem er mikilvægt að við tökumst á hendur með festu og það eru húsnæðismálin, sá málaflokkur sem tengist beint lífgæðum allra íbúa þessa lands. Við horfum upp á það að húsnæðisverð hefur hækkað mikið, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, á síðustu misserum sem ekki aðeins gerir fólki erfitt fyrir að komast inn á húsnæðismarkaðinn heldur hefur þessi hækkun bein áhrif á verðbólgu og þar með lífskjör fólks um allt land.
Fortíð er fortíð – horfum fram á veginn
Ekki hefur farið fram hjá neinum að þeir aðilar sem bera sameiginlega ábyrgð á stöðunni á húsnæðismarkaði eru ekki sammála um ástæður þessara miklu hækkana. Að mínu mati er ljóst að þessi ágreiningur mun ekki skila okkur neitt áfram og veldur óásættanlegri pattstöðu. Nú er tíminn til að leggja þennan ágreining og þessar skærur til hliðar. Fortíð er fortíð og nú verðum við, ríki, sveitarfélög, aðilar vinnumarkaðarins og byggingariðnaðurinn að horfa fram á veginn og skapa jafnvægi á húsnæðismarkaði.
Allir verða að leggja hönd á plóg
Stofnun nýs innviðaráðuneytis sem undir heyra húsnæðismál, skipulagsmál, málefni sveitarfélaga, samgöngumál og byggðamál er mikilvægur þáttur í því að ná nauðsynlegri yfirsýn svo hægt sé að taka markviss skref í því að ná jafnvægi. Undir ráðuneytið heyrir viðamikil gagnasöfnun sem mun nýtast vel í því átaki sem ráðast þarf í. Það er hins vegar ljóst að allir þeir sem koma að húsnæðismálum þurfa að leggja sitt af mörkum í þeirri vinnu sem er fram undan.
Fjárfestum í jafnvægi á húsnæðismarkaði
Á næstu dögum mun ég skipa stýrihóp til að móta húsnæðisstefnu fyrir Ísland sem unnin verður í víðtæku samráði við hagsmunaaðila víða í þjóðfélaginu. Húsnæðisstefnan verður lögð fyrir Alþingi til samþykktar í formi þingsályktunar.
Ef mín áform ganga eftir verður lagður grundvöllur að því að hér á landi verði hægt að stórauka húsnæðisuppbyggingu á næstu árum og jafnvel horft til þess að setja markið á að það verði byggðar allt að 20.000 íbúðir á næstu fimm árum og þar af 7.000 með aðkomu hins opinbera í formi fjölbreytts húsnæðisstuðnings. Við erum með skýr markmið.
Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst á mbl.is 10. mars 2022.