Á dögunum undirritaði Guðlaugur Þór, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, friðlýsingu vegna Skrúðs í Dýrafirði. Friðlýsingin tekur til Skrúðs í heild auk vegghleðslna umhverfis garðinn, garðhliðs úr hvalbeini, gosbrunns og gróðurhúss og annarra sögulegra mannvirkja.
Skrúður á sér merka sögu og má rekja hana til byrjunar síðustu aldar. Hann var gerður í upphafi skólahalds á Núpi og tilgangur garðsins var að styðja við menntun nemenda skólans, bæði hvað varðar fræðslu um ræktun matjurta, grasafræðikennslu og ekki síst til að fegra umhverfið. Nafn garðsins, Skrúður, er fyrirmynd orðsins „skrúðgarður“ sem notað er um slíka garða víða um land.
Garðurinn var gerður að frumkvæði sr. Sigtryggs Guðlaugssonar sem var stofnandi skólans á Núpi og fyrsti skólastjórinn. Þau hjón Sigtryggur og Hjaltlína Guðjónsdóttir unnu ötullega að uppbyggingu garðsins og sótti Hjaltlína sér menntun í garðyrkjufræðum sem nýttist vel við uppbyggingu og viðhald hans.
Falin perla
Það er mikil vinna að viðhalda slíkum garði og halda uppi merkjum hans í rúma öld. Meðan skólahald var á Núpi var honum sinnt af skólanum enda í eigu hans og þar held ég að hafi sérstaklega verið tvær konur sem sinntu þeirri vinnu, Hjaltlína og seinna Ingunn Guðbrandsdóttir ásamt manni hennar, Þorsteini Gunnarssyni. Eftir að Ingunn og Þorsteinn fóru frá Núpi upp úr árinu 1980 fór garðinum að hnigna. Skólahald á Núpi var lagt niður árið 1992 og þar með varð garðurinn munaðarlaus en þá tóku heimamenn og áhugamenn sig saman um að koma garðinum til þeirrar virðingar sem hann áður hafði.
Það hefur ekki alltaf gengið þrautalaust en eitt er víst að það má þakka þá þolinmæði og baráttu sem unnin hefur verið í þeim efnum. Nú hefur Skrúður fengið ákveðna viðurkenningu sem vonandi gefur þann kraft til framtíðar sem hann á skilinn.
Þeir sem barist hafa fyrir umhirðu garðsins eiga miklar þakkir skildar. Ég vil hvetja alla sem leið eiga um Dýrafjörð til að gefa sér tíma til að heimsækja Skrúð. Það er ánægjuleg heimsókn, ekki síst fyrir söguna, sér í lagi nú þegar garðurinn er í góðri umhirðu og fjölbreyttur.
Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 25. október 2023.