Categories
Greinar

Skrúður í Dýrafirði

Deila grein

25/10/2023

Skrúður í Dýrafirði

Á dög­un­um und­ir­ritaði Guðlaug­ur Þór, um­hverf­is-, orku- og lofts­lags­ráðherra, friðlýs­ingu vegna Skrúðs í Dýraf­irði. Friðlýs­ing­in tek­ur til Skrúðs í heild auk vegg­hleðslna um­hverf­is garðinn, garðhliðs úr hval­beini, gos­brunns og gróður­húss og annarra sögu­legra mann­virkja.

Skrúður á sér merka sögu og má rekja hana til byrj­un­ar síðustu ald­ar. Hann var gerður í upp­hafi skóla­halds á Núpi og til­gang­ur garðsins var að styðja við mennt­un nem­enda skól­ans, bæði hvað varðar fræðslu um rækt­un ma­t­jurta, grasa­fræðikennslu og ekki síst til að fegra um­hverfið. Nafn garðsins, Skrúður, er fyr­ir­mynd orðsins „skrúðgarður“ sem notað er um slíka garða víða um land.

Garður­inn var gerður að frum­kvæði sr. Sig­tryggs Guðlaugs­son­ar sem var stofn­andi skól­ans á Núpi og fyrsti skóla­stjór­inn. Þau hjón Sig­trygg­ur og Hjaltlína Guðjóns­dótt­ir unnu öt­ul­lega að upp­bygg­ingu garðsins og sótti Hjaltlína sér mennt­un í garðyrkju­fræðum sem nýtt­ist vel við upp­bygg­ingu og viðhald hans.

Fal­in perla

Það er mik­il vinna að viðhalda slík­um garði og halda uppi merkj­um hans í rúma öld. Meðan skóla­hald var á Núpi var hon­um sinnt af skól­an­um enda í eigu hans og þar held ég að hafi sér­stak­lega verið tvær kon­ur sem sinntu þeirri vinnu, Hjaltlína og seinna Ing­unn Guðbrands­dótt­ir ásamt manni henn­ar, Þor­steini Gunn­ars­syni. Eft­ir að Ing­unn og Þor­steinn fóru frá Núpi upp úr ár­inu 1980 fór garðinum að hnigna. Skóla­hald á Núpi var lagt niður árið 1992 og þar með varð garður­inn munaðarlaus en þá tóku heima­menn og áhuga­menn sig sam­an um að koma garðinum til þeirr­ar virðing­ar sem hann áður hafði.

Það hef­ur ekki alltaf gengið þrauta­laust en eitt er víst að það má þakka þá þol­in­mæði og bar­áttu sem unn­in hef­ur verið í þeim efn­um. Nú hef­ur Skrúður fengið ákveðna viður­kenn­ingu sem von­andi gef­ur þann kraft til framtíðar sem hann á skil­inn.

Þeir sem bar­ist hafa fyr­ir um­hirðu garðsins eiga mikl­ar þakk­ir skild­ar. Ég vil hvetja alla sem leið eiga um Dýra­fjörð til að gefa sér tíma til að heim­sækja Skrúð. Það er ánægju­leg heim­sókn, ekki síst fyr­ir sög­una, sér í lagi nú þegar garður­inn er í góðri um­hirðu og fjöl­breytt­ur.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 25. október 2023.