Categories
Fréttir Greinar

Nóbelsverðlaunin í hagfræði 2023 snúast um launaþróun kynjanna

Deila grein

24/10/2023

Nóbelsverðlaunin í hagfræði 2023 snúast um launaþróun kynjanna

Claudia Gold­in hlaut Nó­bels­verðlaun­in í hag­fræði í ár fyr­ir að efla skiln­ing okk­ar á stöðu kvenna á vinnu­markaði. Hagrann­sókn­ir Gold­in ná yfir síðustu 200 ár og fjalla um stöðu kvenna á banda­rísk­um vinnu­markaði og veg­ferðina að auknu launa­jafn­rétti. Rann­sókn­ir henn­ar hafa hrakið hefðbundn­ar álykt­an­ir um hvaða breyt­ur leiði til auk­ins jafn­rétt­is. Fyr­ir rann­sókn­ir Gold­in var talið að auk­inn hag­vöxt­ur leiddi til auk­ins jafn­rétt­is á vinnu­markaðinum. Í rann­sókn­um sem birt­ar voru árið 1990 sýndi Gold­in fram á að það var ekki fyrr en á tutt­ug­ustu öld­inni, þegar störf­um í þjón­ustu­geir­an­um fjölgaði og mennt­un á fram­halds­skóla­stigi þróaðist, að launamun­ur kynj­anna fór að minnka.

Vænt­ing­ar um barneign­ir skýra launamun

Á tutt­ug­ustu öld jókst mennt­un­arstig kvenna stöðugt og hafði áhrif á að minnka launamun­inn fram af. Önnur stór skýri­breyta er aðgang­ur kvenna að getnaðar­varn­arpill­unni árið 1961 í Banda­ríkj­un­um, þar sem hún gerði kon­um kleift að skipu­leggja náms- og starfs­fer­il­inn. Hefðbund­in sögu­skýr­ing á launamun kynj­anna var sú að kon­ur og karl­ar hefðu á unga aldri valið sér mennt­un, sem leiddi síðan til ákveðinna starfa sem væru mis­vel launuð. Gold­in komst hins veg­ar að því að sá launamun­ur sem enn er við lýði skýrist að stærst­um hluta af áhrif­um barneigna. Hagrann­sókn­ir Gold­in sýna fram á að launamun­ur kynj­anna minnkaði í nokkr­um skref­um. Laun kvenna hækkuðu í hlut­falli við laun karla á ár­un­um 1820-50, og svo aft­ur 1890-1930, áður en þau hækkuðu á ár­un­um 1980-2005 (sjá mynd 1).

Mestu breyt­ing­arn­ar eiga sér stað á átt­unda ára­tug síðustu ald­ar. Kyn­bund­inn launamun­ur hef­ur hald­ist nokkuð stöðugur í Banda­ríkj­un­um und­an­far­in 20 ár. Árið 2022 voru meðallaun kvenna 82% af því sem karl­ar höfðu að meðaltali. Meg­in­út­skýr­ing á því að launamun­ur­inn minnk­ar felst í vænt­ing­um, þ.e. ef ung kona stýr­ir því hvenær og hvort hún eign­ast barn og hef­ur meiri vænt­ing­ar um að kon­ur geti unnið fjöl­breytt störf, þá fjár­fest­ir hún meira í framtíð sinni. Á ár­un­um 1967-1979 jókst hlut­fall 20 og 21 árs kvenna sem væntu þess að vera í vinnu 35 ára úr 35% í 80%! Einn ann­ar mik­il­væg­ur áhrifa­vald­ur þess­ara umbreyt­inga, sem fylgdu pill­unni, var að kon­ur gátu frestað gift­ingu sem olli því sam­kvæmt Gold­in að þær tóku há­skóla­nám fast­ari tök­um, gátu hugsað sér sjálf­stæða framtíð og mótað sjálfs­mynd sína fyr­ir hjóna­band og fjöl­skyldu.

Leiðrétt­ur launamun­ur karla og kvenna á Íslandi er 4,3%

Sam­kvæmt rann­sókn Hag­stofu Íslands var óleiðrétt­ur launamun­ur karla og kvenna 9,1% árið 2022 og dróst sam­an frá fyrra ári úr 10,2%. Óleiðrétt­ur launamun­ur kynj­anna á Íslandi hef­ur minnkað hægt og bít­andi síðustu ára­tugi. Launamun­ur á Íslandi eykst eft­ir aldri og er mun­ur­inn 0,7% á meðal 24 ára og yngri og 16,3% á meðal 55-64 ára. Þessi niðurstaða er í sam­ræmi við rann­sókn sem Hag­stof­an gerði árið 2021 en þar kom fram að launamun­ur karla og kvenna dróst sam­an frá 2008 til 2020. Kyn­bund­in skipt­ing vinnu­markaðar í störf og at­vinnu­grein­ar skýr­ir að miklu leyti þann launamun sem er til staðar en áhrif mennt­un­arstigs og lýðfræðilegra þátta á launamun hafa minnkað, einkum seinni árin (sjá mynd 2).

Það er afar já­kvætt að launamun­ur kynj­anna haldi áfram að minnka enda er það hag­ur allra. Ísland er metið vera sá staður í ver­öld­inni þar sem best er að vera úti­vinn­andi kona, sam­kvæmt tíma­rit­inu Econom­ist og glerþaks­vísi­töl­unni.

Enn í dag hafa barneign­ir og hjú­skap­ur mik­il áhrif á launamun í Banda­ríkj­un­um

Launamun­ur kynj­anna út frá fram­halds­námi í Banda­ríkj­un­um hef­ur ekki breyst mikið frá ár­inu 2005 og Gold­in hef­ur verið að leita skýr­inga. Í bók sem hún gaf út árið 2021 kem­ur hún með þá kenn­ingu að störf­um sem fela í sér mikla yf­ir­vinnu og óvissu sé um að kenna. Fram kem­ur í lang­tíma­gögn­um þar sem fylgst er með lífi og tekj­um ein­stak­linga í Banda­ríkj­un­um að laun karla og kvenna eru áber­andi svipuð strax eft­ir fram­halds­nám eða há­skóla­nám. Á fyrstu árum starfs­fer­ils­ins er launamun­ur lít­ill hjá ný­út­skrifuðum há­skóla­nem­um og skýrist hann að mestu leyti af ólíku náms- og starfs­vali karla og kvenna. Karl­ar og kon­ur byrja nán­ast á sama tekju­grunni og hafa mjög svipuð tæki­færi. Það er ekki fyrr en lengra er liðið á æv­ina, um tíu árum eft­ir að há­skóla­námi lýk­ur, að mik­ill launamun­ur kem­ur í ljós hjá körl­um og kon­um, sér­stak­lega þeim kon­um sem eiga tvö börn.

Barneign­ir hafa ekki mik­il áhrif á launamun á Íslandi en yf­ir­vinna skýr­ir mun­inn

Þegar svo­kallaður leiðrétt­ur launamun­ur er skoðaður var hann 4,3% á Íslandi árið 2019. Þetta þýðir að ef karl­ar og kon­ur ynnu að jafnaði sömu störf, í sömu at­vinnu­grein­um, þá stæði eft­ir að kon­ur fengju að meðaltali um 4,3% lægri laun en karl­ar vegna kyns síns. Hins veg­ar þegar aðeins er leiðrétt fyr­ir lýðfræðileg­um breyt­um, þ.e. aldri, hjú­skap­ar­stöðu og fjölda barna, var leiðrétt­ur launamun­ur 10,9% árið 2019. Það gef­ur til kynna að breyt­urn­ar í líkan­inu skýri ein­ung­is að litlu leyti óleiðrétta launamun­inn. Niður­stöður gefa einnig til kynna að þess­ar breyt­ur hafi mark­tækt ólík áhrif á karla og kon­ur. Hjú­skap­arstaða á Íslandi hef­ur til að mynda eng­in áhrif á laun kvenna en það að ein­stak­ling­ur sé í sam­búð hef­ur já­kvæð áhrif á laun karla. Slík áhrif eru þekkt í fjöl­mörg­um lönd­um en ný­leg rann­sókn frá Banda­ríkj­un­um sýn­ir að áhrif­in eru einkum vegna þess að karl­menn með hærri laun eru lík­legri til þess að kvæn­ast, þ.e. laun­in hafa áhrif á hjú­skap­ar­stöðu en ekki öf­ugt. Fjöldi barna und­ir tveggja ára aldri hef­ur sam­kvæmt rann­sókn­inni ómark­tæk áhrif á laun kvenna á Íslandi og lít­il áhrif (til lækk­un­ar) á laun karla.

Hagrann­sókn­ir Gold­in eru mjög áhuga­verðar. Áður en Gold­in hóf rann­sókn­ir sín­ar töldu marg­ir fræðimenn að spurn­ing­um um launamun kynj­anna í sögu­legu sam­hengi væri ósvarað vegna skorts á gögn­um. Segja má að sú leið sem Ísland hef­ur farið í jafn­rétt­is­mál­um sanni hag­fræðikenn­ing­ar Gold­in, þ.e. að með öfl­ugri upp­bygg­ingu leik­skóla­stigs­ins ásamt 12 mánaða fæðing­ar­or­lofi hafi launamun­ur­inn minnkað mark­visst. Fram­sæk­in kvenna­bar­átta í gegn­um tíðina skipt­ir einnig sköp­um. Þrátt fyr­ir það er launamun­ur og hann eykst eft­ir aldri. Þessu þarf að breyta ásamt því að efla leik­skóla­stigið og starfs­um­hverfi kenn­ara!

Ég óska sam­fé­lag­inu til ham­ingju með dag­inn og hvet okk­ur öll til áfram­hald­andi góðra verka í þágu jafn­rétt­is­mála.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. október 2023.