Virkjunarkostir fyrir smávirkjanir hér á landi eru margir, en skiplags- og leyfismál smávirkjana eru flókin og reglugerðir íþyngjandi. Ferlið frá hugmynd að tengingu er kostnaðarsamt og tímafrekt og langt frá samsvarandi ferli framkvæmda, t.d. í landbúnaði þar sem framkvæmdir bæði á landi og mannvirkjum geta kostað umtalsvert rask.
Smávirkjanir, þ.e. virkjanir með uppsett rafafl 200 kW til 10 MW, eru tilkynningarskyldar til Skipulagsstofnunar samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum. Framkvæmdum er í 1. viðauka við lögin skipt í flokka A, B og C með hliðsjón af því mati sem skal fara fram.
Einfalda þarf kerfið
Norðmenn hafa náð góðum árangri á sviði smávirkjana, en þar hefur ein stofnun, norska Orkustofnunin (NVE), umsjón með leyfisveitingum. NVE hefur kortlagt mögulega virkjunarkosti. Norsk stjórnvöld lögðu til fjármagn svo að hægt væri að kortleggja alla virkjunarkosti í vatnsafli og nota reiknilíkön svipuð þeim sem Vatnaskil og Veðurstofan hafa yfir að ráða hér á landi til að spá fyrir um rennsli í vatnsföllum. Fyrirtæki hafa sprottið upp sem taka að sér að sjá um undirbúning fyrir byggingu virkjunar, fjármögnun, hönnun og leyfi og gera langtímasamninga við bændur um tekjur af virkjununum.
Styrkja dreifikerfi raforku
Ljóst er að smávirkjanir eru ein leið til að styrkja dreifikerfi landsins og lækka kostnað við reksturs þess. Einföldun á leyfis- og skipulagsmálum smávirkjana opnar á leið til að ná niður dreifingarkostnaði raforku í dreifbýli, jafna raforkukostnað, jafna tækifærin til atvinnu og stuðla að sjálfbærri þróun byggða um allt land.
Því hef ég lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis að Alþingi álykti að fela umhverfis- og auðlindaráðherra og atvinnu- og nýsköpunarráðherra að endurskoða lög og reglugerðir er gilda um leyfisveitingar til uppsetningar smávirkjana með það að markmiði að einfalda umsóknarferli í tengslum við þær.
Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 13. nóvember 2019.