Akranes er gott samfélag sem er að mínu mati í þægilegri fjarlægð frá Reykjavík og þangað er því auðvelt að sækja m.a. vinnu og háskóla. Fasteignaverð á Akranesi er einnig talsvert lægra en í höfuðborginni Reykjavík, þó fasteignaverð hafi hækkað umtalsvert á síðustu misserum. Á Skaganum eru einnig góðir leik- og grunnskólar og önnur öflug grunnþjónusta sem er vel mönnuð fagfólki á hinum ýmsu sviðum.
Því er ekki annað en hægt að velta fyrir sér, hvers vegna íbúafjölgun á Akranesi er mun lægri en í öðrum nágrannasveitarfélögum höfuðborgarinnar. Í nýlegum fréttum kom fram að íbúum á Akranesi hefur fjölgað um 1,7% á undanförnu ári á meðan fjölgunin er 3,5% í Árborg og 8,5% í Reykjanesbæ.
Reyndar vitum við að skortur hefur verið á íbúðarhúsnæði á Akranesi. En nú eru uppi áform um að koma inn með um 650 íbúðir, til að koma á móts við þann skort sem verið hefur. Það er nauðsynleg aðgerð og í því samhengi þarf að horfa til ýmissa þátta eins og uppbyggingar á félagslegu húsnæði, húsnæði fyrir aldraða og auk þess þarf aukið framboð inn á hinn almenna markað.
En geta aðrir þættir haft áhrif á þessa þróun? Getur verið að fólk í fasteignahugleiðingum horfi frekar til sveitarfélaga eins og t.d. Árborgar og Reykjanesbæjar? Getur verið að Akranes líði fyrir að vera eina sveitarfélagið, úr dæminu sem tekið var fyrir í fréttum, þar sem fólk þarf að greiða veggjöld á leið sinni til og frá Reykjavík?
Í þrígang hef ég lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi um skattaafslátt vegna ferða til og frá vinnu. Sú tillaga hefur einhverra hluta vegna fengið dræmar undirtektir og því ekki náð fram að ganga. Tillagan fjallar um að fólk sem greiða þarf ákveðna upphæð vegna ferða til og frá vinnu eða skóla fá skattaafslátt á móti. Gæti verið ef hún hefði náð fram að ganga, að hún hefði haft áhrif á þessa íbúaþróun?
Það verður ekki litið fram hjá því að Skagamenn og aðrir íbúar Vesturlands búa við ójafnræði hvað varðar kostnað vegna ferða til og frá vinnu. Sumir segja að við höfum val um aðra leið sem er Hvalfjörðurinn. Því er ég ekki sammála.
Við verðum að fara í verulegar vegabætur á Vesturlandsvegi og ráðast sem fyrst í lagningu Sundabrautar. Þá fyrst förum við að tala um raunverulegt val. Skaginn á svo sannarlega sóknarfæri. Ódýrara húsnæði og meiri gæðastundir með fjölskyldunni. Það er þess virði.
Elsa Lára Arnardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins
Greinin birtist á Skessuhorni, 7. september 2017