Categories
Greinar

Sómi Íslands

Deila grein

23/03/2020

Sómi Íslands

Kenn­ar­ar, starfs­fólk skól­anna og skóla­stjórn­end­ur hafa unnið af­rek í vik­unni, í sam­starfi við nem­end­ur og stjórn­völd. Lagað sig að dæma­laus­um aðstæðum og lagst sam­an á ár­arn­ar svo að mennta­kerfið okk­ar og sam­fé­lagið haldi áfram. Hafi þeir bestu þakk­ir fyr­ir.Sam­fé­lagið er að hluta lagst í dvala og ein­kenni­leg kyrrð hef­ur færst yfir marga kima sam­fé­lags­ins, sem venju­lega iða af lífi. Sú ákvörðun stjórn­valda að banna sam­kom­ur af ákveðinni stærð og setja strang­ar regl­ur um sam­skipti fólks er gríðarlega stór. Hún var tek­in með heilsu og heil­brigði þjóðar í huga, að til­lögu þeirra sem við treyst­um fyr­ir al­manna- og sótt­vörn­um í land­inu. Mat þeirra var að for­dæma­lausra aðgerða væri þörf til að lág­marka út­breiðslu veirunn­ar sem nú herj­ar á alla heims­byggðina. Þess vegna var ákveðið að loka há­skóla- og fram­halds­skóla­bygg­ing­um og fela skól­un­um að skipu­leggja fjar­nám. Af sömu ástæðu var ákveðið að halda leik- og grunn­skól­um opn­um að upp­fyllt­um ákveðnum skil­yrðum þar til annað væri ákveðið.

Breytt skólastarf í leik- og grunn­skól­um

Breyt­ing­ar á kennslu og skóla­haldi eru ekki hrist­ar fram úr erm­inni. Aðstæður skól­anna til að bregðast við eru afar ólík­ar, ým­ist eft­ir skóla­stig­um, húsa- og tækja­kosti, nem­enda- og starfs­manna­fjölda, náms­grein­um o.s.frv. Þrátt fyr­ir það hef­ur skóla­sam­fé­lagið staðist prófið með glæsi­brag. Virkni og regla er ekki síst mik­il­væg fyr­ir yngstu nem­end­urna. Tak­mark­an­ir á leik- og grunn­skóla­starfi hafa kraf­ist mik­ils af kenn­ur­um og skóla­stjórn­end­um, sem þurfa ekki aðeins að tryggja tak­markaðan sam­gang milli nem­enda held­ur einnig nám og kennslu. All­ir skól­ar hafa haldið uppi skóla­starfi í vik­unni, að frá­töld­um þeim sem hafa lokað dyr­un­um af sótt­varn­ar­ástæðum, og hafa með því unnið mik­inn sig­ur. Um­fang kennslu og fjöldi kennslu­stunda á hverj­um stað hef­ur tekið mið af aðstæðum, en vilj­inn til að halda börn­un­um í námi verið ótví­ræður.

Fram­halds- og há­skól­ar í fullri virkni

Í fram­halds- og há­skól­um hafa kenn­ar­ar brugðist hratt við, snarað hefðbundnu náms­efni yfir á ra­f­rænt form, hugsað í lausn­um og haldið nem­end­um sín­um við efnið. Fjar­kennsla hef­ur tekið á sig fjöl­marg­ar skemmti­leg­ar mynd­ir og virkni nem­enda síst verið minni en í hefðbund­inni kennslu. Þátt­taka í kennslu­stund­um og verk­efna­skil hafa jafn­vel verið meiri en alla jafna. Það er vel, enda nauðsyn­legt að virkni í sam­fé­lag­inu sé eins mik­il og frek­ast er unnt. Hins veg­ar ber að hafa í huga að brott­hvarf úr námi get­ur auk­ist veru­lega í ástandi eins og nú rík­ir. Þess vegna hafa skóla­meist­ar­ar og rek­tor­ar lands­ins lagt okk­ur lið við að sporna strax við slíku. Fram­lag allra sem komið hafa að mál­inu er lofs­vert.Lána­sjóður ís­lenskra náms­manna hef­ur held­ur ekki látið sitt eft­ir liggja. Stjórn sjóðsins hef­ur í sam­vinnu við mennta- og menn­ing­ar­málaráðuneyti létt á áhyggj­um náms­manna og greiðenda af náms­lán­um. Tekju­viðmið hafa verið hækkuð, inn­heimtuaðgerðum seinkað og regl­ur við mat á um­sókn­um um und­anþágu á af­borg­un­um rýmkaðar tíma­bundið. Þá hef­ur stjórn LÍN samþykkt að taka til greina ann­ars kon­ar staðfest­ingu skóla á ástund­un nem­enda en vott­orð fyr­ir ein­ing­ar sem lokið hef­ur verið. Þannig er komið til móts við nem­end­ur sem ekki geta sinnt námi vegna rösk­un­ar á skóla­starfi.

Sam­vinna og sam­starf er lyk­ill­inn

Veru­lega hef­ur reynt á sam­fé­lagið allt und­an­farna daga. Mál hafa þró­ast með ótrú­leg­um hraða og sumt í veru­leik­an­um minn­ir á skáld­skap. Það á ekki bara við um áskor­an­ir sem stækka með hverj­um degi, held­ur líka sigra og of­ur­hetj­ur sem láta ekk­ert stöðva sig. Við aðstæður eins og þess­ar er ómet­an­legt að sam­skipti milli lyk­ilaðila í skóla­kerf­inu séu góð. Sú hef­ur enda verið raun­in und­an­farn­ar vik­ur og fyr­ir það ber að þakka. End­ur­tek­in og reglu­leg sam­skipti hafa fært fólk nær hvert öðru, aukið skiln­ing á aðstæðum og þétt raðirn­ar. Það birt­ist til dæm­is í sam­eig­in­legri yf­ir­lýs­ingu sem full­trú­ar kenn­ara, sveit­ar­fé­laga og ráðuneyt­is und­ir­rituðu fyr­ir tæpri viku, og sneri að skóla­starfi við þær und­ar­legu aðstæður sem nú eru uppi. Þar er jafn­framt áréttað að aðkoma miklu fleiri aðila er for­senda þess að hlut­irn­ir gangi upp. Al­menn­ing­ur all­ur, for­eldr­ar, fyr­ir­tæki og stofn­an­ir þurfa að sýna ábyrgð og sveigj­an­leika, og fylgja til­mæl­um sem koma frá yf­ir­völd­um og skóla­stjórn­end­um um skóla­hald.Ég tek heils hug­ar und­ir hvert orð í yf­ir­lýs­ing­unni, þar sem seg­ir meðal ann­ars að skólastarf sé ein af grunnstoðum sam­fé­lags­ins. Skól­ar hafi meðal ann­ars það hlut­verk að auka jöfnuð og vernda börn. Starfs­fólk skól­anna hafi unnið þrek­virki við að styðja við nem­end­ur á þess­um óvissu­tím­um.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 21. mars 2020.