Categories
Greinar

Sterkar stelpur – sterk samfélög

Deila grein

06/10/2014

Sterkar stelpur – sterk samfélög

Gunnar Bragi SveinssonTitill þessa greinarstúfs vísar í vikulangt kynningarátak um þróunarsamvinnu sem hefst í dag, þar sem unglingsstúlkur í þróunarríkjum verða í brennidepli.

Á hverjum degi glíma stúlkur í fátækari löndum heims við fjölmargar hindranir og víðast hvar verða þær fyrir kerfisbundnum mannréttindabrotum sökum kynferðis og aldurs. Félagsleg staða velflestra þeirra er veik, og fátækt og erfiðar aðstæður gera þær enn varnarlausari og rödd þeirra veikari. Í flestum þróunarlöndum hallar verulega á stúlkur þegar kemur að menntun. Þó þær gangi í vaxandi mæli í grunnskóla er brottfall algengt vandamál, enda gegna þær margvíslegum skyldum heima við sem látnar eru ganga fyrir, auk þess sem hjónaband og ótímabærar barneignir binda enda á skólagöngu þeirra. Framhaldsmenntun ljúka þær sjaldan og því tækifæri til atvinnu og tekjuöflunar takmarkaðar.

Þá getur þungun og barnsfæðing meðal unglingsstúlkna skapað mikla hættu, en ár hvert fæða 16 milljónir stúlkna á aldrinum 15-19 ára barn. Vandkvæði á meðgöngu og í fæðingu er meginástæða dauðsfalla meðal stúlkna í þessum aldurshópi. Þá eru ótalin varanleg heilsufarsvandamál svo sem fistill, auk þess sem ungar mæður og börn þeirra deyja frekar í fæðingu en þegar mæðurnar eru líkamlega tilbúnar til að ala barn.

Þess vegna er mikilvægt að réttindi ungs fólks og aðgangur að upplýsingum og þjónustu sé tryggður svo stuðla megi að bættu kyn- og frjósemisheilbrigði og -réttindum. Aukin þekking getur dregið úr ótímabærum þungunum stúlkubarna og átt þátt í að binda enda á kynbundið og kynferðislegt ofbeldi og skaðlegar hefðir. Þar er átt við hefðir líkt og limlesting á kynfærum og nauðungarhjónabönd sem bitna oftast sérstaklega á stúlkum auk þess sem kynbundið og kynferðislegt ofbeldi gegn unglingsstúlkum er víða landlægt, látið óátalið og fær ekki meðferð í réttarkerfinu.

Á sama tíma og við gerum okkur grein fyrir því ójafnrétti sem viðgengst í garð unglingsstúlkna og þeim margvíslegu hindrunum sem þær takast á við dag hvern, vitum við að í valdeflingu þeirra felast mýmörg og mikilvæg tækifæri. Í rauninni má segja að unglingsstúlkur séu sjálfur lykillinn að framförum. Fyrir þær sjálfar og samfélagið í heild sinni.

Það hefur sýnt sig að menntun er ekki aðeins lykilþáttur í að bæta stöðu stúlkna heldur árangursrík leið til að draga úr fátækt og stuðla að þróun samfélaga. Hún hefur jafnframt margfeldisáhrif. Menntaðar stúlkur eru líklegri til að ganga seinna í hjónaband og eiga færri börn, sem aftur eru líklegri til að lifa af, búa við betra heilsufar og ganga menntaveginn. Menntaðar konur hafa betri tök á að þekkja og standa vörð um réttindi sín og stöðu og njóta fleiri tækifæra til að hafa áhrif og vera virkir þátttakendur innan veggja heimilisins og úti í samfélaginu.

Þá er lykilatriði að vinna markvisst að því að breyta viðhorfum sem víða eru ríkjandi í garð stúlkna og kvenna. Vinna þarf gegn mismunun og mannréttindabrotum og afnámi skaðlegra hefða sem standa jafnrétti og þróun samfélaga fyrir þrifum. Sérhver stúlka, óháð búsetu eða fjárhagsstöðu, á tilkall til að geta nýtt hæfileika sína og getu til fullnustu. Í dag er of mörgum stúlkum neitað um þann rétt. Vítahring misréttis og mismununar verður að rjúfa.

Það er því ánægjulegt að geta sagt frá því að stuðningur við unglingsstúlkur er mikilvægur þáttur í alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands. Bæði í gegnum stuðning við menntun þeirra og heilsufar í samstarfslöndum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands, sem og í gegnum verkefni alþjóðastofnana á borð við UNICEF og UN Women þar sem einnig er barist gegn ofbeldi gegn stúlkum og fyrir afnámi skaðlegra hefða líkt og limlestinga á kynfærum stúlkna.

Áfram stelpur!

Gunnar Bragi Sveinsson

Greinin birtist í Morgunblaðinu 6. október 2014.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.