Categories
Greinar

Sterkari byggðir

Deila grein

01/11/2019

Sterkari byggðir

Fyrir skemmstu mælti ég fyrir á Alþingi þingsályktunartillögu um stefnumótun fyrir sveitarstjórnarstigið. Ellefu aðgerðir þingsályktunarinnar eru innbyrðis tengdar og saman mynda þær heildstæða stefnu um sjálfbær og öflug sveitarfélög.

Sjálfur er ég gamall sveitarstjórnarmaður og ber mikla virðingu fyrir því mikilvæga stjórnsýslustigi sem sveitarstjórnir eru. Ég er þó ekki viss um að fólk geri sér almennt grein fyrir því ótrúlega öfluga starfi sem unnið er á sviði sveitarstjórna því í almennri umfjöllun er það Alþingi og ríkisstjórn sem fær mesta athygli. Sveitarstjórnarstigið er mikilvægur hluti af íslensku lýðræði. Vægi þess hefur aukist eftir því sem árin líða því stór verkefni hafa verið flutt frá ríkinu til sveitarfélaganna með það að markmiði að þjónusta sem skiptir fólk miklu frá degi til dags sé nálæg. Má þar nefna skipulagsvald, grunnskóla og málefni atlaðra. Öll þessi verkefni krefjast þess að sveitarstjórnarstigið sé sterkt og geti tekið mál föstum tökum með hagsmuni íbúa að leiðarljósi. Mörg smærri sveitarfélög og íbúar þeirra reiða sig að miklu leyti á samninga við önnur sveitarfélög, til dæmis á sviði skólamála. Það felur í sér framsal á valdi og ákvörðunum og gerir stjórnsýslumörk óljósari. Þetta veldur augljóslega ákveðnum lýðræðishalla.

Þingsályktuninni er ætlað að styrkja sveitarstjórnarstigið sem heild og efla sveitarfélög til að þau geti haldið vel á málum fyrir íbúa sína og einnig verið öflugur mótleikari við ríkið. Hún snýr að stjórnsýslu – ekki er verið að sameina samfélög heldur stjórnsýsluna með það að markmiði að efla hana. Selfyssingurinn er áfram Selfyssingur þótt stjórnsýslueiningin heiti Sveitarfélagið Árborg.

Í ráðuneyti mínu höfum við unnið að því að setja fram stefnu í málaflokkum ráðuneytisins til fimmtán ára með fimm ára verkáætlunum. Samgönguáætlun, byggðaáætlun, fjarskiptaáætlun og stefna ríkisins í sveitarstjórnarmálum vinna allar saman í átt að því að styðja við byggð um allt land – búa til sterkara Ísland.

Ég bendi áhugasömum á að kynna sér málið frekar á vef Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, srn.is.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 1. nóvember 2019.