Í Samfélagssáttmála Rousseaus er fjallað um einkenni góðs stjórnarfars. Fram kemur að ef íbúum þjóðríkis fjölgar og þeir eflast sem einstaklingar væri um að ræða skýra vísbendingu um gott stjórnarfar. Ísland hefur á síðustu öld borið gæfu til þess að uppfylla þessi skilyrði, þ.e. fjölgun íbúa, aukin tækifæri fyrir einstaklinga ásamt því að þjóðartekjur hafa hækkað. Hins vegar þurfum við stöðugt að vera á tánum og tilbúin til að styrkja grunnstoðir samfélagsins.
Samkeppnishæfni aukin
Nýverið voru kynnt frumvarpsdrög um Stuðningssjóð íslenskra námsmanna (SÍN), nýtt námsstyrkja- og lánakerfi. Lánsþegum hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna hefur fækkað verulega á undanförnum árum á sama tíma og margir íslenskir námsmenn á Norðurlöndum kjósa frekar að taka lán hjá norrænum lánasjóðum en þeim íslenska. Auka þarf samkeppnishæfni íslenska kerfisins, því annars er hætta á spekileka vegna þessa, þ.e. að nemar hugi frekar að því að setjast að þar sem þeir hafa fjárhagslegar skuldbindingar.
30% niðurfelling námslána
Með nýju frumvarpi munu lánþegar sem ljúka prófgráðu innan tilgreinds tíma geta fengið námsstyrk sem nemur 30% af höfuðstóli námsláns. Þetta er grundvallarbreyting frá núverandi kerfi sem mun gera stuðning við námsmenn skýrari og jafnari. Í núverandi kerfi felst styrkurinn í niðurgreiddum vöxtum og afskriftum námslána en honum er mjög misskipt milli námsmanna. Stærstur hluti styrksins hefur farið til þeirra námsmanna sem taka hæstu námslánin og fara seint í nám. Á sama tíma eru þeir sem hefja nám ungir og taka hóflegri námslán líklegri til að fá engar afskriftir. Nýtt frumvarp mun breyta þessu en að auki munu námsmenn njóta bestu vaxtakjara sem ríkissjóði Íslands bjóðast á lánamörkuðum að viðbættu lágu álagi.
Barnastyrkir í stað lána
Önnur grundvallarbreyting sem felst í frumvarpinu er styrkur vegna barna. Í núverandi námslánakerfi er lánað fyrir framfærslu barna en með nýju fyrirkomulagi geta lánþegar fengið styrk vegna slíkrar framfærslu. Markmiðið með barnastyrknum er að jafna aðstöðu lánþega sem eiga börn og annarra lánþega. Gert er ráð fyrir að styrkur til framfærslu hvers barns sé í samræmi við námstíma námsmanns að hámarki 96 mánuðir. Styrkurinn kemur til viðbótar við 30% niðurfellinguna sem námsmönnum býðst við lok prófgráðu á tilsettum tíma.
Nýja frumvarpið boðar róttæka breytingu á núverandi fyrirkomulagi sem mun stuðla að sterkari stöðu námsmanna og mun fjölskylduvænna umhverfi. Markmið allra stjórnvalda á að vera að styrkja samfélagið sitt, þannig að það sé eftirsóknarvert til búsetu. Frumvarpsdrög til nýrra laga um Stuðningssjóð íslenskra námsmanna er liður í því að efla samfélagið okkar.
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. júlí 2019.