Ríkisstjórnin hefur á síðustu vikum komið með fjölmargar aðgerðir sem ætlað er að brúa bilið þangað til aftur er hægt að ferðast um heiminn. Við höfum lagt áherslu á að vernda lífsgæði fólks og það að fyrirtækin geti hafið starfsemi sína að nýju þegar óveðrinu slotar, veitt fólki störf og skapað samfélaginu tekjur.
Ég er bjartsýnn maður að eðlisfari og trúi því að ekki verði grundvallarbreytingar á ferðaþrá fólks og ferðalögum. Það er einfaldlega mjög sterkur þráður í manninum að vilja skoða sig um á ókunnum slóðum. Þess vegna er mikilvægt að við séum viðbúin þegar náðst hefur stjórn á veirunni.
Ferðaþjónustan er gríðarlega mikilvæg fyrir samfélagið og ekki síst er hún stórkostlegt afl úti í hinum dreifðu byggðum. Og þangað til hún endurheimtir kraftinn úr ferðaþrá heimsins hef ég lagt ofuráherslu á að ríkisstjórnin skapi ný störf sem geta veitt fólki um allt land tekjur á meðan þetta ástand varir. Margra milljarða aukning í verkefnum tengdum samgöngum um allt land er til þess ætluð að skapa fjölskyldum tekjur til að lifa góðu lífi. Og auk þess eru samgönguframkvæmdir arðsamar fyrir samfélagið.
Framsókn hefur alltaf verið nátengd lífinu í landinu, enda spratt flokkurinn upp úr bændasamfélagi fyrir rúmri öld. Við höfum stutt við uppbyggingu um allt land og ferðaþjónustan hefur staðið okkur nærri. Við munum áfram berjast fyrir því að hagsmunir fjölskyldna um allt land séu hafðir í öndvegi við ákvarðanatöku við ríkisstjórnarborðið.
Ég hvet alla Íslendinga til að ferðast um okkar fagra land í sumar. Þannig styðjum við við það fólk sem hefur haldið uppi mikilvægu starfi fyrir land og þjóð síðustu árin og höldum hjólunum gangandi þangað til rákunum á himninum fjölgar að nýju.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 2. maí 2020.