Categories
Greinar

Stöndum með heimilunum

Deila grein

06/09/2015

Stöndum með heimilunum

Elsa-Lara-mynd01-vefurÁstandið á leigumarkaðnum er slæmt. Mikil eftirspurn er eftir húsnæði, framboð of lítið og í flestum tilvikum er leiguverð mjög hátt. Margir sem búa á leigumarkaði búa jafnframt við mikið óöryggi, þar sem erfitt getur verið að fá langtímaleigusamninga. Undanfarin misseri hefur mikil og góð vinna farið fram í ráðuneyti félags – og húsnæðismálaráðherra við undirbúning að framlagningu húsnæðisfrumvarpa. Stefnt er að því að leggja þau fram á haustþingi. Auk þess er vinna hafin víðar innan ráðuneytanna til að vinna hratt og örugglega í samræmi við yfirlýsingu stjórnvalda frá 28. maí s.l. en hún varðar kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Hér á eftir er gerð grein fyrir þeim hluta yfirlýsingarinnar sem snýr að húsnæðismálum.

Fjölgum hagkvæmum og ódýrum íbúðum

Frumvarp um stofnstyrki er væntanlegt í þingið á haustþingi. Markmið frumvarpsins er að leggja grunn að nýju félagslegu leiguíbúðakerfi. Lögð er áhersla á að fjölga hagkvæmdum og ódýrum íbúðum til að tryggja tekjulágum fjölskyldum leiguhúsnæði til lengri tíma. Félagslega leigukerfið verður fjármagnað með stofnframlögum ríkis og sveitarfélaga og með beinum vaxtaniðurgreiðslum ríkisins. Þessi framlög eiga að leiða til þess að einstaklingur með lágar tekjur, borgi ekki hærra hlutfall af tekjum í leigu en 20 – 25 %.

Samkvæmt frumvarpinu geta sveitarfélög og félög eða félagasamtök sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni, byggt og rekið félagslegt húsnæði. Þau verða að hafa það að langtímamarkmið að byggja, eiga og hafa umsjón með rekstri leiguhúsnæðis sem eingöngu er ætlað leigjendum undir ákveðnum tekju- og eignamörkum. Stefnt er að því að byggja 2300 íbúðir á næstu fjórum árum, þ.e. frá 2016 – 2019, þó að hámarki 600 íbúðir á ári.

Samkvæmt frumvarpinu verður tekjulágum fjölskyldum, sem hingað til hafa ekki átt kost á íbúðum í félagslegu kerfi sveitarfélaganna, veittur aðgangur að ódýru og öruggu leiguhúsnæði. Ekki er gert ráð fyrir breytingum á núverandi forgangsröðun sveitarfélaganna gagnvart skjólstæðingum félagsþjónustunnar eða forgangsröðun gagnvart námsmannaíbúðum, en við frekari forgangsröðun við úthlutun húsnæðis til fólks á vinnumarkaði verður horft sérstaklega til barnafjölskyldna og heimila í verulegum fjárhagsvanda.

Aukum framboð og lækkum byggingarkostnað

Til að hægt verði að auka framboð á leiguíbúðum og lækka byggingarkostnað, þá er mikilvægt að taka upp sem hagkvæmastar aðferðir við íbúðarbyggingar, með það að markmiði að lækka byggingarkostnað.  Því þarf að endurskoða byggingarreglugerð og skipulagslög. Við endurskoðun byggingareglugerðar er stefnt að því að taka inn nýjan flokk mannvirkja sem verður undanþeginn ákvæðum um altæka hönnun. Það á eingöngu við um smærri og ódýrari íbúðir. Einnig á að skoða gjaldtöku sveitarfélaga vegna lóða – og gatnagerðargjalda, til að lækka byggingarkostnað. Nauðsynlegt er að vinna þessa vinnu hratt en vel.

Aukum húsnæðisbætur

Frumvarp um húsnæðisbætur kemur inn í þingið á fyrstu vikum þess, núna í haust. Það hefur það að markmiði að lækka húsnæðiskostnað efnaminni leigjenda og því verða húsnæðisbætur hækkaðar á árinu 2016 og 2017. Grunnfjárhæð bótanna verður hækkuð og einnig frítekjumark. Bæturnar munu taka mið af fjölda heimilismanna. Auk þessa er unnið að tillögum um að lækka skatta á leigutekjur með það að markmiði að lækka leiguverð og auka framboð leiguíbúða.

Varanlegur húsnæðissparnaður

Eins og margir muna eflaust, fór ríkisstjórnin í skuldaaðgerð fyrir íslensk heimili með verðtryggðar húsnæðisskuldir. Aðgerðirnar snérust annars vegar um beina niðurfærslu lána og hins vegar heimild til skattfrjálsrar ráðstöfunar iðgjalda séreignasparnaðar inn á húsnæðislán eða til húsnæðiskaupa. Nú er heimildin til skattfrjálsrar ráðstöfunar tímabundin, það er fimm ár þegar um er að ræða húsnæðissparnað. Kallað hefur verið eftir því að húsnæðissparnaðurinn verði gerður að varanlegu sparnaðarformi. Nú er vinna hafin við að skoða möguleika þess efnis. Eins og sparnaðurinn er byggður upp í dag, þá er hann ætlaður þeim sem eru að kaupa sína fyrstu eign.

Unnið verður að framangreindum markmiðum í samráðshópi ríkis, sveitarfélaga og heildarsamtaka aðila á vinnumarkaði með hliðsjón af fyrirliggjandi vinnu stjórnvalda við umbætur á húsnæðismarkaði  og hugmyndum sem komið hafa upp í samráðshópnum. Óhætt er því að segja að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar standi með heimilum í landinu.

 Elsa Lára Arnardóttir

Greinin birtist í DV 4. september 2015.