Að mínu frumkvæði sem formanns fjárlaganefndar, var haldinn fundur í fjárlaganefnd þann 24. ágúst s.l. Á dagskrá var útgjaldaauki ríkissins sem varðar þann málaflokk sem snýr að örorkulífeyri. Frá árinu 2000 hefur öryrkjum fjölgað um tæp 80%. Útgjöld ríkissins voru árið 2005 rúmir 11 milljarðar en eru nú tæpir 30 milljarðar. Það er hækkun um 165% á 10 árum. Fjöldi þeirra sem þáðu öryrkjalífeyrir árið 2005 voru rúmir 13.000 einstaklingar en árið 2015 eru þeir rúmlega 17.000 sem er fjölgun um 29%. Forstjóri Tryggingastofnunar lagði fram gögn úr gagnagrunni stofnunarinnar, sem studd eru með áliti ríkisendurskoðunar til Alþingis frá því í febrúar 2013 sem ber heitið „EFTIRLIT TRYGGINGASTOFNUNAR MEÐ BÓTAGREIÐSLUM“
Formaður stjórnar Tryggingastofnunar, Stefán Ólafsson prófessor hefur farið mikinn í fjölmiðlum í liðinni viku og telur mig fara með staðlausa stafi. Ég hef ekki viljað tjá mig um orð prófessorsins og fara niður á sama plan og hann. Í pistli sem hann birti á heimasíðu sinni og ber heitið „Rangfærslur Vigdísar Hauks um öryrkja“ eru hvorki meira né minna sex staðreyndavillur varðandi fjölda öryrkja og samanburð við Norðurlöndin. Prófessorinn fór síðan í viðtal á Bylgjuna og þar opinberaði hann algjörlega vanþekkingu sína á málaflokknum og ruglar saman bótasvikum og uppgjöri í stargreiðslukerfi lífeyristrygginga. Hann telur bótasvik vera alvarlegt mál „en þegar menn eru að slá því fram að bótasvik gætu verið hér um 4 milljarðar á ári, þá eru það tölur sem eru ekki ígrundaðar heldur yfirfærðar frá Danmörku og séu í reynd umdeildar tölur í Danmörku.“ Hann telur jafnframt að inní í þessari upphæð séu líka rangar greiðslur á þann hátt að „menn“ gætu fengið of mikið eða of mikið lítið miðað við tekjur sem síðan sé leiðrétt þegar skatturinn kemur í ágúst á hverju ári, og síðan segir prófessorinn að „þessi frávik frá skattinum eru ekki bótasvik.“ Í árlegum endurreikningi og uppgjöri í staðgreiðslukerfis lífeyristrygginga er ekki litið svo á að um bótasvik sé um að ræða. Árlegur endurreikningur og uppgjör í staðgreiðslukerfis lífeyristrygginga er eðlilegur þáttur þess og hefur ekkert með bótasvik eða starfsemi eftirlitseiningar Tryggingastofnunar að gera. Þar er einungis verið að gera upp árið og tryggja að allir fái þann lífeyri sem þeir eiga rétt á lögum samkvæmt. Algerlega sambærilegt við árlega álagningu skatta. Afar alvarlegt er að gera hér ekki greinarmun á. Í raun er það eins og að fullyrða að allir sem fá einhverja leirðréttingu við álagningu skatta séu til meðferðar vegna hugsanlegra skattsvika. Ég er því afar hugsi yfir framgöngu formanns stjórnar Tryggingastofnunar, Stefáns Ólafssonar í þessu máli.
Vigdís Hauksdóttir
Greinin birtist á vigdish.is 3. september 2015.