Categories
Greinar

Stóraukið framboð á leigumarkaði

Deila grein

18/05/2016

Stóraukið framboð á leigumarkaði

Elsa-Lara-mynd01-vefurÁnægjulegt er að segja frá því að mikil uppbygging er framundan á leigumarkaði. Reyndar er um að ræða eina þá mestu uppbyggingu sem verið hefur frá árinu 1965 eða frá því Breiðholtið var byggt.

Eitt af fyrstu verkum félags – og húsnæðismálaráðherra, Eyglóar Harðardóttur, var að skipa Verkefnastjórn um framtíðarskipan húsnæðismála. Stjórnin hafði það verkefni að koma með tillögur að bættu húsnæðisumhverfi á Íslandi, m.a. hvernig ætti að stuðla að uppbyggingu á leigumarkaði. Verkefnastjórnin skilaði af sér og nú hafa verið lögð fram frumvörp þessa efnis. Eitt þeirra er frumvarp um almennar leiguíbúðir sem felur í sér uppbyggingu á 2300 leiguíbúðum. Búið er að mæla fyrir málinu í annarri umræðu í þinginu og innan skamms verður frumvarpið að lögum. Þessar íbúðir sem hér um ræðir verða byggðar með stofnframlagi ríkis og sveitarfélaga og ætlaðar einstaklingum og fjölskyldum í tveimur lægstu tekjufimmtungunum. Markmið þessara aðgerða er að leiguverð verði ekki hærra en 20 – 25 % af ráðstöfunartekjum þeirra sem í kerfinu búa. Með þessum aðgerðum er stuðlað að félagslegri blöndun innan kerfisins.

Helstu atriðin sem frumvarpið felur í sér eru:

– Uppbygging á 2300 leiguíbúðum.
– Einstaklingar þurfa að tilheyra tveimur lægstu tekjufimmtungunum þegar flutt er inn í kerfið. Ef laun hækka umfram það þá má búa áfram í kerfinu og borga hóflegt álag á leigu.
– Markmið að leigugreiðslur fari ekki yfir 20 – 25% af ráðstöfunartekjum. Þá er miðað við að frumvarp um húsnæðisbætur nái fram að ganga.
– 18% stofnframlag frá ríki og 12% frá sveitarfélögum. Stofnframlag sveitarfélaga geta t.d. verið í formi lóða eða afsláttar af gatnagerðagjöldum.
– Heimilt að veita 6% viðbótarstofnframlag frá ríki og 4% frá sveitarfélögum vegna íbúða á svæðum þar sem skortur er á leigu­húsnæði og bygging íbúða hefur verið í lágmarki eða sérstök vandkvæði á því að fá fjármögnun á al­mennum markaði.
– Heimilt að veita 4% viðbótarstofnframlag til leiguíbúða á vegum sveitarfélaga eða til íbúðarhúsnæðis sem er ætlað námsmönnum eða öryrkjum.
– Sveitarfélög og fyrirtæki geta tekið sig saman og byggt upp leigufélög.

Viltu vera með?
Það er Íbúðarlánasjóður sem mun halda utan um stofnframlög ríkisins og meta umsóknir. Ég hvet sveitarfélög um land allt að kynna sér málið, fá upplýsingar og meta hvort þörf er á og eða áhugi á að taka þátt.

Elsa Lára Arnardóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 17. maí 2016.