Jólabókaflóðið er skollið á, af meiri krafti en margir óttuðust fyrir fáeinum árum þegar bókaútgáfa hafði dregist verulega saman. Sú þróun var óheppileg af mörgum ástæðum enda er bóklestur uppspretta þekkingar og færni.
Gamla klisjan um að Íslendingar séu og eigi a ð vera bókaþjóð er skemmtileg, en dugar ekki ein og sér til að tryggja blómlega bókaútgáfu og lestur. Viðskiptalegar forsendur þurfa líka að vera til staðar. Þess vegna réðust stjórnvöld í aðgerðir til að snúa við neikvæðri útgáfuþróun og stuðla þannig að auknum lestri, sérstaklega meðal ungmenna. Opinber stuðningur við útgáfu bóka á íslensku felst í endurgreiðslu á hluta útgáfukostnaðar og hefur á fáeinum árum skilað ótrúlegum árangri. Þannig hefur útgefnum bókatitlum fjölgað um 36% frá árinu 2017 og fyrir vikið getur bókaþjóðin státað af mikilfenglegri flóru bókmennta af öllu mögulegu tagi, fyrir aldna sem unga.
Það er óumdeilt að bóklestur eykur lesskilning barna, þjálfar greiningarhæfileika þeirra, einbeitingu og örvar ímyndunaraflið. Bóklestur örvar minnisstöðvar hugans, hjálpar okkur að skilja heiminn og tjá okkur. Allt ofangreint – og margt fleira – undirbýr börnin okkar fyrir framtíðina, sem enginn veit hvernig verður. Framtíðarfræðingum ber þó saman um að sköpunargáfa sé eitthvert besta veganestið inn í óvissa framtíðina ásamt læsi af öllu mögulegu tagi; menningarlæsi, talna-, tilfinninga- og fjármálalæsi svo dæmi séu nefnd. Hlutverk samfélagsins, með heimili og skóla í fararbroddi, er að hjálpa skólabörnum nútímans að rækta þessa eiginleika í bland við gagnrýna hugsun, dómgreind, lærdómsviðhorf og þrautseigju. Þar dugar ekki að hugsa til næstu fimm eða tíu ára, því börn sem byrjuðu skólagöngu sína í haust geta vænst þess að setjast í helgan stein að loknum starfsferli árið 2085.
Þetta stóra samfélagsverkefni verður ekki leyst með útgáfu bóka á íslensku einni saman, en hún er mikilvæg forsenda þess að börn nái að tileinka sér nauðsynlega framtíðarfærni. Þess vegna er svo mikilvægt að börn hafi aðgang að fjölbreyttu úrvali bóka og annars lesefnis á sínu móðurmáli og þeim peningum sem ríkið ver í stuðning við bókaútgefendur er vel varið. Á þessu ári hafa ríflega 360 milljónir króna runnið úr ríkissjóði til útgáfu 703 bóka. Það er umtalsverð fjárhæð, en það er einlæg sannfæring mín að hún muni ávaxta sig vel í höndum, huga og hæfileikum þeirra sem lesa.
Samfélags- og tæknibreytingar hafa ekki stöðvað jólabókaflóðið í ár, frekar en fyrri ár. Þvert á móti er straumurinn nú þyngri en áður og flóðið hefur skolað á land ómetanlegum fjársjóði. Ég hlakka til að njóta á aðventunni og hvet fólk til að setja nýja íslenska bók í jólapakkann í ár, bæði til barna og fullorðinna. Gleðilega aðventu!
Höfundur er mennta- og menningarmálaráðherra.
Höfundur: Lilja Dögg Alfreðsdóttir