Categories
Greinar

Straumhvörf

Deila grein

25/11/2021

Straumhvörf

Jóla­bóka­flóðið er skollið á, af meiri krafti en marg­ir óttuðust fyr­ir fá­ein­um árum þegar bóka­út­gáfa hafði dreg­ist veru­lega sam­an. Sú þróun var óheppi­leg af mörg­um ástæðum enda er bók­lest­ur upp­spretta þekk­ing­ar og færni.

Gamla klisj­an um að Íslend­ing­ar séu og eigi a ð vera bókaþjóð er skemmti­leg, en dug­ar ekki ein og sér til að tryggja blóm­lega bóka­út­gáfu og lest­ur. Viðskipta­leg­ar for­send­ur þurfa líka að vera til staðar. Þess vegna réðust stjórn­völd í aðgerðir til að snúa við nei­kvæðri út­gáfuþróun og stuðla þannig að aukn­um lestri, sér­stak­lega meðal ung­menna. Op­in­ber stuðning­ur við út­gáfu bóka á ís­lensku felst í end­ur­greiðslu á hluta út­gáfu­kostnaðar og hef­ur á fá­ein­um árum skilað ótrú­leg­um ár­angri. Þannig hef­ur út­gefn­um bóka­titl­um fjölgað um 36% frá ár­inu 2017 og fyr­ir vikið get­ur bókaþjóðin státað af mik­il­feng­legri flóru bók­mennta af öllu mögu­legu tagi, fyr­ir aldna sem unga.

Það er óum­deilt að bók­lest­ur eyk­ur lesskiln­ing barna, þjálf­ar grein­ing­ar­hæfi­leika þeirra, ein­beit­ingu og örv­ar ímynd­un­ar­aflið. Bók­lest­ur örv­ar minn­is­stöðvar hug­ans, hjálp­ar okk­ur að skilja heim­inn og tjá okk­ur. Allt of­an­greint – og margt fleira – und­ir­býr börn­in okk­ar fyr­ir framtíðina, sem eng­inn veit hvernig verður. Framtíðarfræðing­um ber þó sam­an um að sköp­un­ar­gáfa sé eitt­hvert besta vega­nestið inn í óvissa framtíðina ásamt læsi af öllu mögu­legu tagi; menn­ing­ar­læsi, talna-, til­finn­inga- og fjár­mála­læsi svo dæmi séu nefnd. Hlut­verk sam­fé­lags­ins, með heim­ili og skóla í far­ar­broddi, er að hjálpa skóla­börn­um nú­tím­ans að rækta þessa eig­in­leika í bland við gagn­rýna hugs­un, dómgreind, lær­dóm­sviðhorf og þraut­seigju. Þar dug­ar ekki að hugsa til næstu fimm eða tíu ára, því börn sem byrjuðu skóla­göngu sína í haust geta vænst þess að setj­ast í helg­an stein að lokn­um starfs­ferli árið 2085.

Þetta stóra sam­fé­lags­verk­efni verður ekki leyst með út­gáfu bóka á ís­lensku einni sam­an, en hún er mik­il­væg for­senda þess að börn nái að til­einka sér nauðsyn­lega framtíðarfærni. Þess vegna er svo mik­il­vægt að börn hafi aðgang að fjöl­breyttu úr­vali bóka og ann­ars les­efn­is á sínu móður­máli og þeim pen­ing­um sem ríkið ver í stuðning við bóka­út­gef­end­ur er vel varið. Á þessu ári hafa ríf­lega 360 millj­ón­ir króna runnið úr rík­is­sjóði til út­gáfu 703 bóka. Það er um­tals­verð fjár­hæð, en það er ein­læg sann­fær­ing mín að hún muni ávaxta sig vel í hönd­um, huga og hæfi­leik­um þeirra sem lesa.

Sam­fé­lags- og tækni­breyt­ing­ar hafa ekki stöðvað jóla­bóka­flóðið í ár, frek­ar en fyrri ár. Þvert á móti er straum­ur­inn nú þyngri en áður og flóðið hef­ur skolað á land ómet­an­leg­um fjár­sjóði. Ég hlakka til að njóta á aðvent­unni og hvet fólk til að setja nýja ís­lenska bók í jólapakk­ann í ár, bæði til barna og full­orðinna. Gleðilega aðventu!

Höf­und­ur er mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra.

Höf­und­ur: Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir