Categories
Greinar

Stundum eru lausnirnar svo ein­faldar

Deila grein

23/02/2022

Stundum eru lausnirnar svo ein­faldar

Umræða um mikilvægi klasasamstarfs hefur farið vaxandi undanfarin ár. Klasar hafa víða sannað gildi sitt; þeir auka samkeppnishæfni og verðmætasköpun almennt. Ég hef því lagt fram þingsályktunartillögu um að nýta skuli hugmyndafræði klasasamstarfs til að efla samvinnu opinberra fyrirtækja og stofnana, stuðla að hagræðingu og færa núverandi ástand í þeim málum til betri vegar.

Margvísleg hagræðing fylgir skynsamlegu vali á staðsetningu ríkisstofnana og fyrirtækja

Með uppbyggingu opinberra klasa er mögulegt að hagræða enn frekar í ríkisrekstri og bæta skipulag á mörgum sviðum. Opinbert klasasamstarf getur aukið framleiðni og nýsköpun og þannig leitt til verðmætasköpunar. Uppbygging klasa opinberra fyrirtækja og stofnana getur skilað umtalsverðri rekstrarlegri hagræðingu. Gera mætti ráð fyrir 5.000–6.000 m2 skrifstofuhúsnæði þar sem ynnu 250–300 starfsmenn nokkurra lítilla opinberra fyrirtækja og stofnana. Með slíkri útfærslu mætti ná fram hagræðingu með þeim samlegðaráhrifum sem yrðu í rekstri þeirra fyrirtækja og stofnana sem þar væru til húsa. Þar má helst nefna sameiginlegan rekstur tölvukerfa, móttöku, mötuneytis og húsnæðisins sjálfs.

Risa samgöngubót fyrir höfuðborgarsvæðið nái tillagan fram að ganga

Flestar þessara stofnana og fyrirtækja eru í Reykjavík. Við höfum séð opinberar stofnanir og fyrirtæki flytja í nýtt húsnæði og getur það verið af hinum ýmsu ástæðum. Hins vegar er það mat mitt að þegar slíkir flutningar eiga sér stað, sé það ekki gert með nægilega skynsömum hætti. Horfa þarf frekar til rekstrarlegra áhrifa líkt og lagt er upp með í tillögunni. Nái þingsályktunartillagan fram að ganga er mikilvægt að klasi sem þessi verði á slóðum þar sem nýta megi umferðarmannvirki betur. Það má gera með þeim hætti að staðsetja klasann á svæði þar sem umferð að klasanum verði í gagnstæða átt við mestan umferðarþunga þá tíma dags sem við þekkjum öll; að morgni og seinni part dags þegar fólk fer í og úr vinnu og skóla. Af þeirri ástæðu þurfa einnig hágæða almenningssamgöngur að vera til staðar í nágrenni.

Stundum eru lausnirnar svo einfaldar. Það eina sem þarf er vilji til góðra verka. Með tillögunni er hægt að ná fram betri nýting á umferðarmannvirkjum og minnka sóun í kerfinu, sóun m.a. á opinberum fjármunum og tíma fólks. Að þessu sögðu tel ég að þetta geti verið ein ódýrasta, besta og skilvirkasta samgöngubót sem íbúar höfuðborgarsvæðisins geta fengið.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar í Suðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 22. febrúar 2022.