Categories
Greinar

Sveitarstjórnarráðstefna Framsóknar haldin í Reykjanesbæ

Deila grein

13/03/2019

Sveitarstjórnarráðstefna Framsóknar haldin í Reykjanesbæ

Helgina 22.-23. mars verður Sveitarstjórnarráðstefna Framsóknar haldin á Park-Inn hótelinu í Reykjanesbæ og hefst skráning á föstudeginum kl.16:30.  Áætlað er að ráðstefnunni ljúki svo kl. 16:00 á laugardag. Flokkurinn er annar stærsti flokkur landsins á sveitarstjórnarstiginu og er blásið til ráðstefnunnar með það að markmiði að efla sveitarstjórnarfólk til góðra verka og vinna að stefnumótun sveitarstjórnarráðs. Ráðstefnan er einnig góður vettvangur til  tengslamyndunnar þar sem sveitarstjórnarfólk ef oft að glíma við sambærileg mál, getur sótt í þekking og reynslu hvers annars og notið góðrar samveru. Sveitarfélög á Íslandi hafa mikilvægu hlutverki að gegna. Þau eru grunnstoðir þess velferðarkerfis sem hér hefur verið reist, en á þeirra könnu er félagsþjónustan, rekstur grunn- og leikskóla ásamt æskulýðs- og tómstundastarfsemi. Þá fara þau einnig með skipulagsvald innan sinna bæjarmarka.

Mikilvægi sveitarfélaganna er þó ekki einskorðað við opinberar skyldur þeirra. Öflug og sjálfstæð sveitarfélög bæta valddreifingu og færa valdið heim í sveit. Þar sem sveitarfélög eru smærri einingar hafa íbúar aukna nálægð við stjórnendur og mikilvægt að góð samskipti við bæjarbúa leggi grunninn að góðum samfélögum. Dagskrá sveitarstjórnarráðstefnunnar er fjölbreytt, en þar verður rætt um húsnæðismál, samvinnu sveitarstjórnarfólks og þingmanna ásamt stefnumótun. Bjóðum við sveitarstjórnarmenn, nefndarfólk og aðra áhugasama framsóknarmenn velkomna hingað til Reykjanesbæjar til þess að líta með okkur til framtíðar. Skráning á ráðstefnuna er á skrifstofu flokksins í síma 540-4300 eða í gegnum netfangið framsokn@framsokn.is. Frekari upplýsingar og dagskrá ráðstefnunnar má finna á vef flokksins. Sjáumst í Reykjanesbæ! – Ingibjörg Isaksen, formaður sveitarstjórnarráðs Framsóknarflokksins

Jóhann Friðrik Friðriksson, forseti bæjarstjórnar í Reykjanesbæ.

Ingibjörg Ólöf Isaksen, bæjarfulltrúi á Akureyri og formaður sveitarstjórnarráðs Framsóknar.