Ásmundur Einar Daðason: „Íþrótta- og æskulýðsstarf hér á landi getur ekki átt sér stað í núverandi mynd án sjálfboðaliða sem sífellt gefa af sér í þágu heildarinnar.
Í dag er alþjóðlegur dagur sjálfboðaliðans. Af því tilefni hefur mennta- og barnamálaráðuneytið beint sjónum að mikilvægi sjálfboðaliða fyrir íþrótta- og æskulýðsstarf með kynningarátaki undir yfirskriftinni „alveg sjálfsagt“. Það er til umhugsunar um vinnuframlag sem er aðdáunarvert og hreint ekki sjálfsagt. Í dag fer fram ráðstefna ráðuneytisins um þær áskoranir sem skipuleggjendur starfs sem reiðir sig á sjálfboðaliða standa frammi fyrir.
Með því að fagna deginum vilja Sameinuðu þjóðirnar benda á mikilvægi sjálfboðastarfs fyrir samfélagið og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Evrópukannanir gefa til kynna að um 30% Íslendinga eldri en 18 ára vinni sjálfboðastörf á hverjum tíma. Við minnumst með þakklæti og hlýju þeirra ótal sjálfboðaliða sem á hverjum degi verja tíma sínum í margvísleg samfélagsleg verkefni af umhyggju og einstakri ósérhlífni.
Í heimsfaraldrinum kom mikilvægi íþrótta- og æskulýðsstarfs fyrir samfélagið allt berlega í ljós. Þegar við siglum út úr faraldrinum er mikilvægt að skoða hvort starf með sjálfboðaliðum hafi breyst og hvaða áskoranir eru fram undan.
Við þurfum að hlúa vel að sjálfboðastarfinu okkar og búa þannig um að það haldi áfram að vera eftirsóknarvert. Áfram þarf að undirbúa nýjar kynslóðir undir komandi verkefni þar sem sjálfboðastarf verður áfram mikilvægt. Sjálfboðaliðar þurfa að geta öðlast þekkingu og reynslu sem nýtist til lífstíðar og að takast á við spennandi og krefjandi verkefni á eigin forsendum. Ekki síður er mikilvægt að þátttaka í sjálfboðastarfi geti áfram skapað tækifæri til að kynnast nýju fólki og skapa vinatengsl til frambúðar. Í samfélagi þar sem samkeppni um tíma fólks og athygli verður sífellt meiri er áskorun að ná til einstaklinga sem reiðubúnir eru að taka að sér sjálfboðastörf og finna verkefni við hæfi.
Íþrótta- og æskulýðsstarf hér á landi getur ekki átt sér stað í núverandi mynd án sjálfboðaliða sem sífellt gefa af sér í þágu heildarinnar. Fögnum því að búa í samfélagi þar sem þátttaka í sjálfboðastarfi er jafn sjálfsögð og raun ber vitni.
Takk sjálfboðaliðar!
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.
Greinin birtist fyrst á mbl.is 5. desember 2022.