Categories
Forsíðuborði Greinar

Talaðu við mig íslensku

Deila grein

20/12/2017

Talaðu við mig íslensku

Fjórða iðnbyltingin er ekki lengur handan við hornið, hún er þegar hafin. Birtingarmyndir hennar eru sjáanlegar á öllum sviðum þjóðlífsins, hvort sem litið er til aukinnar sjálfvirknivæðingar í atvinnulífinu eða snjallsímanotkunar almennings. Mörg tækifæri felast í breytingum sem þessum, en jafnframt miklar og krefjandi áskoranir. Ein stærsta áskorunin snýr að tungumálinu okkar, íslenskunni, og stöðu hennar í hinum stafræna heimi. Eitt af stórum málum ríkisstjórnarinnar er ný og fullfjármögnuð máltækniáætlun fyrir íslensku 2018-2022, sem er svarið við þessari áskorun. Markmið hennar er að tryggja að hægt sé að nota íslensku í samskiptum við tæki og í allri upplýsingavinnslu, og um leið varðveita dýrmæta tungumálið okkar til framtíðar.

En hvað felst í þessari framandi og viðamiklu áætlun? Í grunninn má skipta verkefnunum í fimm þætti. Sá fyrsti er talgreining, en í henni felst að þegar þú talar við tækið þitt á íslensku umbreytir tækið talmálinu í ritmál. Þannig verður fólki auðveldað að eiga samskipti við tölvur og tæki með þeim hætti sem flestum þykir eðlilegast: með því að tala. Annar þátturinn er talgerving. Talgervlar eru notaðir til þess að lesa texta, til dæmis úr greinum, af vefsíðum eða jafnvel heilu bækurnar, og breyta þeim í talað mál.

Þetta mun auka lífsgæði fólks með lestrarörðugleika og gera því kleift að njóta þeirrar fjölbreyttu flóru upplýsinga sem ritmálið geymir. Fólk mun meðal annars geta valið um mismunandi karl- og kvenraddir til að hlýða á. Þriðji þátturinn er vélþýðingar, sem eru sjálfvirkar þýðingar milli tungumála. Það er vöntun á þýðingahugbúnaði sem skilar þýðingum nálægt fullnægjandi gæðum. Eitt af markmiðum máltækniverkefnisins er að smíða opna þýðingavél sem þýðir mili íslensku og ensku. Það mun auka aðgengi að heiminum fyrir fólk sem stendur höllum fæti í enskri tungu og sömuleiðis fyrir þá fjölmörgu sem sýna landinu okkar áhuga og vilja eiga samskipti við okkur. Fjórði þátturinn er málrýni, opinn og aðgengilegur villupúki sem nemur textavillur af ýmsum gerðum og aðstoðar við að leiðrétta þær. Í krefjandi náms- og starfsumhverfi, þar sem tímapressa er meiri, getur hugbúnaður sem þessi nýst til hægðarauka við að skila af sér vel unnum textum sem standast gæðakröfur. Að lokum er það fimmti þátturinn, málgögnin, mikið magn texta sem mynda munu gagnagrunninn.

Með slíkum gögnum verða ofangreind kerfi mötuð og tækjunum þannig kennt það sem skiptir máli. Það verður virkilega ánægjulegt þegar þessi metnaðarfulla áætlun verður að fullu framkvæmd. Slíkt skiptir verulegu máli fyrir framtíð íslenskunnar og málþroska barnanna okkar.
Í stað þess að segja „Talk to me in English“ við símann sinn munu þau geta sagt „talaðu við mig íslensku“. Það er fagnaðarefni.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 20. desember 2017.