Categories
Greinar

Það sést til lands

Deila grein

25/02/2016

Það sést til lands

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherraLengi hef ég haft trú á því að hægt væri að tryggja Vestfirðingum næga og stöðuga orku eða allt frá því að fulltrúar Vesturverks kynntu mér sínar hugmyndir um virkjunaráform í Hvalá.

Um nokkurn tíma hefur verið unnið að því að láta þetta verða að veruleika.

Hvalárvirkjun ein og sér er um 55 MW virkjun en með öðrum virkjunum, Austurgilsvirkjun og Skúfnavatnavirkjun, má ætla að um 100 MW framleiðsla sé raunhæf.  Síðan má nefna aðra kosti í Ísafjarðardjúpi sem minna eru rannsakaðir en geta talið allt að 35-40 MW. Í ljósi þess að virkjanir á Vestfjörðum framleiða einungis um 15 MW er um verulega aukningu á raforkuframleiðslu að ræða.

Vesturverk og HS Orka hafa sýnt mikla framsýni og keyrt þetta verkefni áfram af rökfestu og fagmennsku.

Forsenda þess að geta nýtt þessa kosti er að hægt sé að tengja framleiðsluna við raforkukerfið og koma henni um Vestfirði sem og inná landskerfið. Jákvæð teikn eru um að Nauteyri í Ísafjarðardjúpi sé góður kostur sem afhendingarstaður raforkunnar sem þýðir að verkefnið er framkvæmanlegt og arðbært.

Enginn þarf að efast um hve gríðarlega mikilvægt það er að geta nýtt þá raforkukosti sem til staðar eru á Vestfjörðum.

Aukin framleiðsla orku inná veitukerfi Vestfjarða eykur um leið hagkvæmni þess að ráðast í línulagnir og um leið möguleika á að nýta orkuna til atvinnuuppbyggingar s.s. kalkþörungaverksmiðju sem og að tryggja raforkuöryggi til fyrirtækja og heimila.

Með því að tengja frá Nauteyri til Ísafjarðar er komin á hringtenging raforku um Vestfirði sem er lykilatriði til að tryggja öryggi og dreifingu.

Ég held það sé óhætt að vera bjartsýnn á að þessi áform nái fram að ganga. Framkvæmdaaðilar hafa sýnt mikinn dugnað og framsýni og haft óbilandi trú á verkefninu og tel ég að nú sé kominn ágætur skilningur og trú á það hjá stjórnmálamönnum og embættismönnum.

Frá því að ég fór að fylgja þessu máli eftir hef ég sannfærst meir og meir um mikilvægi þess og fyrir um tveimur árum varð ég sannfærður um að þarna sé eitt af mörgum tækifærum Vestfjarða til að blómstra á ný.

Það má því segja að það sjáist til lands í raforkumálum Vestfjarða.

Gunnar Bragi Sveinsson

Greinin birtist í www.bb.is 23. febrúar 2016.