Categories
Greinar

Þakkir fyrir liðið ár

Deila grein

30/12/2023

Þakkir fyrir liðið ár

Það er ávallt sérstök stund í lok árs hvers árs að setjast niður og hugsa um árið sem er að líða, má segja að árið í ár hafi verið viðburðaríkt og verkefnin fjölbreytt.

Stóra áskorunin hefur verið og verður áfram að vinna að auknum stöðugleika með því að vinna bug á verðbólgu og ná niður vaxtastigi. Má segja að takist það náist mesta kjarabótin fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu.

Framsókn hefur alltaf lagt áherslu á jöfnun búsetuskilyrða um land allt og þar spila samgöngumál mikilvægt hlutverk. Góðar samgöngur eru forsenda byggðar, hvort sem um er að ræða aukið öryggi á vegum, styttingu vegalengda eða tengingu atvinnusvæða.

Við missum ekki sjónar á mikilvægi heilbrigðiskerfisins okkar en efling þjónustu á landsbyggðinni vegur þungt þegar kemur að lífsgæðum og hagsæld. Samningar við sérfræðilækna, stytting biðlista fyrir liðskipti, aðgerðir vegna endómetríósu og hækkun framlags ríkisins til tannréttinga barna eru á meðal nýrra áfanga sem náðust á árinu.

Fjölmörg tækifæri

Fjárlög komandi árs gefa góða mynd af stöðu efnahagsmála, en þau miða að því að auka fjármagn til tiltekinna verkefna á sama tíma og gætt er aðhalds til þess að auka ekki frekar við þenslu og verðbólgu.

Við höfum fjölmörg tækifæri til að búa okkur gott samfélag, við búum við lítið atvinnuleysi, höfum öflug atvinnulíf. Engu að síður verður að halda að byggja upp innviði, fjölga íbúðum og tryggja húsnæðisöryggi.

Efling ferðaþjónustunnar hér á Norðurlandi eystra hefur verið mikil enda tækifærin fjölmörg.  Mikilvægt er að halda áfram uppbyggingu flugvallanna á Akureyri og Egilsstöðum. Nú líður að því að tekin verður í notkun bætt aðstaða innan flugvallarins á Akureyri sem innviðaráðherra Sigurður Ingi hefur unnið ötullega að undanfarin ár, að ógleymdri stækkun flughlaðsins auk þess sem unnið er að því að bæta aðflug og tengingu við svokallað EGNOS kerfi.

Koma EasyJet til Akureyrar hefur opnað möguleika á svæðinu, aukið lífsgæði íbúa og má því segja að það sé bjart framundan hvað varðar frekari uppbyggingu ferðaþjónustu í kjördæminu. Í þessu samhengi má ekki gleyma þeirri braut sem Niceair ruddi.

Öflugri þjónusta

Við í Framsókn höfum lagt ríka áherslu á að grunnþjónusta heilsugæslunnar sé efld enn frekar og sjáum við nú fram á opnun nýrrar heilsugæslustöðvar sem og fjölgun hjúkrunarrýma í bænum. Þá höfum við tækifæri til þess að styrkja heilbrigðisþjónustu á svæðinu með því að efla enn frekar Sjúkrahúsið á Akureyri. Sjúkrahúsið hefur kallað eftir frekari verkefnum tengdum háskólasjúkrahúsi enda hefur starfsfólkið þar dýrmæta þekkingu og getu til að miðla áfram. Ef af verður opnast frekari tækifæri fyrir öflugt starf innan SAk, sem er leitt áfram af einstöku fagfólki.  

Áframhaldandi umbætur

Í desember var til umræðu í þinginu frumvarp sem á að tryggja forgang raforku til heimila og lítilla fyrirtækja sem er afar brýnt og ég hef ítrekað rætt á undanförnum árum. Umfjöllun um málið verður haldið áfram á nýju ári.  

Huga þarf að nýtingu flutningskerfis raforku svo hægt sé að nýta betur þá orku sem þegar er til í landinu en einnig þurfum við að ákveða hversu mikillar orku við áætlum að þjóðin þurfi m.t.t. fjölgunar, meiri framleiðslu og ekki síst vegna orkuskipta og setja fram áætlun um hvernig við ætlum að afla þeirrar orku.

Bændur hafa kallað eftir framtíðarsýn í landbúnaði og aðgerðum til að bregðast við stöðu atvinnugreinarinnar. Með bráðaaðgerðum í lok árs voru lagðar inn 2.3 milljarðar í greinina, til þeirra er verst standa. Við í Framsókn höfum talað fyrir því að meira þurfi til. Möguleikar á endurfjármögnun lána til langs tíma, hlutdeildarlán til nýliða, endurskoðun tolla, raforkuverð og fleira til að skapa bændum möguleikann á sjálfbærum atvinnurekstri.

Samtal lykill að samstöðu

Á komandi ári eru mikilvægar kjaraviðræður þar sem framtíðarsýn og aðkoma margra aðila er nauðsynleg svo að tilætlaður árangur náist, aukin hagsæld og fjármálaöryggi fyrir landsmenn alla.  Það er mikilvægt að allir standi saman að auknum stöðugleika, finni jafnvægi í þeim mikilvægu samræðum sem fram undan eru.

Að lokum vil ég þakka fyrir samtöl og samstarfið á árinu. Það eru forréttindi að fá að starfa fyrir kjördæmið, það geri ég best með því að eigi í opnum og góðum samskiptum við ykkur öll.  

Með þökkum fyrir liðin ár óska ég ykkur öllum gæfu og góðs gengis á nýju ári.

Ingibjörg Isaksen, fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis og þingflokksformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á vikubladid.is 29. desember 2023.