Categories
Greinar

»Þetta reddast«

Deila grein

30/03/2014

»Þetta reddast«

Jóhanna maría_SRGB_fyrir_vefÞegar talað er um fjármálalæsi er verið að tala um getuna til að fjalla um peninga og meðferð þeirra án vandræða, skilja helstu atriði eigin fjármála og hvernig er hægt að hafa áhrif á þau.

Reglulega kemur upp umræðan um það hve Íslendingar séu illa að sér í fjármálalæsi.

Mikið var unnið í þessum málum á árunum 2008-2009 en þá var meðal annars stofnuð nefnd af viðskiptaráðherra Íslands til að kanna stöðuna. Þá kom í ljós að aðeins um helmingur almennings væri almennilega fjármálalæs og að því væri sérstaklega ábótavant hjá tekjulægstu hópunum og þeim sem hafa litla menntun.

Niðurstaða nefndarinnar var að lokum sú, að orðatiltækið »þetta reddast« væri ríkjandi í hugsun Íslendinga. Því um leið og minnihluti sagðist ekki hafa áhyggjur af fjármálum sínum, þá var meirihlutinn á því að geta ekki greitt skuldir sínar á réttum tíma næsta hálfa árið.

Vandinn í kennslu fjármálalæsis liggur ekki í því að hana vanti inn í námsskrár, heldur er það frekar vilji og kunnátta kennara sem ákvarðar hvort þetta sé tekið fyrir. Námsefnið er til og kunnáttan er til staðar, það vantar bara nokkur verkfæri til að miðla henni.

Þegar við tölum um fjármálalæsi meinum við m.a. að einstaklingur eigi að hafa vit á helstu hugtökum sem koma fyrir á launaseðli hans og hvernig þeir liðir eru reiknaðir. Hvernig og hvers vegna skuli borga skatt, grunnur í gerð heimilisbókhalds, hvað kostar að borga með korti og hvernig er best að ávaxta laun eða lífeyrirssparnað eftir því hvernig kerfi eru í gangi hverju sinni.

Fjárhagsleg framtíð
Svona kennsla mun styrkja vitund þeirra einstaklinga sem neytenda og auka siðferði í fjármálum.

Íslendingar eru það heppnir að eiga Stofnun um fjármálalæsi, forstöðumaður hennar, Breki Karlsson, hefur verið duglegur að vekja athygli á vankunnáttu í fjármálalæsi og um leið mikilvægi þess.

»Með bættu fjármálalæsi hefur fólk tækifæri til að móta fjárhagslega framtíð sína út frá því efnahagsumhverfi sem það býr við. Það stuðlar einnig að gagnrýninni og upplýstri umræðu og ýtir undir fyrirhyggju í fjármálum. Þannig er ekki aðeins lagður grunnur að meiri lífsgæðum, heldur einnig stuðlað að ábyrgara og heilbrigðara samfélagi,« segja samtökin um eiginleika fjármálalæsis.

En um leið og við eigum þessa stofnun sem vinnur að þjóðarátaki í fjármálalæsi, gerum kannanir og skýrslur þá erum við ekki að taka almennilega á vandanum. Stýrihópur um eflingu fjármálalæsis í grunn- og framhaldsskólum var settur á laggirnar 2011 og á að ljúka vinnu í árslok 2014.

Við höfum þurft að taka á ýmsum kvillum þess að fjármálalæsi fólks er ekki meira en raun ber vitni og þar má til að mynda nefna SMS-lánin. Vonandi koma aðgerðir út úr vinnu stýrihópsins, hnitmiðuð niðurstaða þar sem Íslendingar eru teknir í fjármálakennslu á mannamáli áður en það verður að vandamáli hjá einstaklingum sem þurfa að treysta á að »þetta reddist«.

Jóhanna María Sigmundsdóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 29. mars 2014.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.