Categories
Greinar

Þjóð á tímamótum

Deila grein

06/01/2014

Þjóð á tímamótum

Sigrún MagnúsdóttirMarkverð þáttaskil eru hjá íslensku þjóðinni um þessi áramót. Hallalaus fjárlög hafa verið afgreidd og nýir kjarasamningar um aukinn kaupmátt undirritaðir á vinnumarkaði. Umskipti hafa orðið á hinu pólitíska sviði. Þeir flokkar sem sigruðu í kosningunum mynduðu ríkisstjórn og þess sér nú merki að nýir valdhafar eru teknir við. Meginkosningaloforð stjórnarflokkanna eru komin í farveg. Stórátak er að hefjast til að lækka húsnæðisskuldir heimilanna sem forsendubrestur hefur hækkað upp úr öllu valdi. Fundin hefur verið farsæl leið til þessa átaks, með því að tvinna saman þau úrræði sem stjórnarflokkarnir hafa barist fyrir.

Öryggisnetið þétt

Fjárlagafrumvarpið sem lagt var fram í haust tók verulegum breytingum í meðferð Alþingis án þess að hverfa frá meginákvörðuninni um hallalaus fjárlög. Fjórum milljörðum er aukið við til heilbrigðismála og með því bætt úr brýnum vanda Landspítalans og jafnframt leyst úr vanda heilbrigðisstofnana víða um land. Sex þúsund milljóna framlag bætist við Almannatryggingar og gengur það til að efna fyrirheit úr kosningabaráttunni um að rétta hlut aldraðra og öryrkja. Þannig erum við að þétta öryggisnetið og bæta skerðingar frá hruninu. Þá er fé lagt til ýmissa verkefna sem höfðu orðið útundan við upphaflegu frumvarpsgerðina.

Forgangsröðun

Miklar umræður spunnust um ýmsar tilfærslur vegna forgangsröðunar verkefna. Nokkur skerðing verður hjá Ríkisútvarpinu. Því var mætt af stjórnendum þess með fækkun starfsfólks á rás eitt. Ekki var fækkað í yfirstjórn né á rás tvö eins og búast hefði mátt við. Þrátt fyrir fækkun á rás eitt er óbreyttri dagskrá haldið þar úti að mestu leyti. Vaxtabætur eru skertar nokkuð hjá þeim sem hafa hæstar tekjur. Framlag til þróunarmála er fært til svipaðs hlutfalls af þjóðartekjum og var fyrir tveimur árum. Með vaxandi þjóðartekjum er ekki víst að um skerðingu verði að ræða. Vafalaust er hægt að spara í yfirstjórn Þróunarsamvinnustofnunar eins og víða.

Skattalækkanir

Skattar á meðaltekjur verða lækkaðir nokkuð og er það að hluta til að greiða fyrir kjarasamningum. Það að kjarasamningar tókust er þjóðfélaginu mjög dýrmætt. Umræða var um að hækka persónuafslátt. Það er mjög dýr aðgerð þótt ekki sé nema um þúsund króna lækkun á einstakling að ræða, auk þess gengur hækkun persónuafsláttar upp allan tekjustigann og óþarfi er að lækka skatta á auðmenn. Daginn er tekið að lengja og það er líka að birta til í þjóðfélaginu. Fyrir hönd þingflokks Framsóknarflokksins færi ég landsmönnum öllum árnaðaróskir. Megi komandi ár verða okkur farsælt.

 

Sigrún Magnúsdóttir

(Greinin birtist í Morgunblaðinu 28. desember 2013.)