Categories
Greinar

Þjónusta við viðkvæma hópa samfélagsins

Deila grein

31/03/2020

Þjónusta við viðkvæma hópa samfélagsins

Undanfarnar vikur hafa verið með öðru sniði en við erum vön. COVID-19 faraldurinn sem nú geisar hefur fært okkur fjölda áskorana og við höfum haft stuttan tíma til að bregðast við. Þegar tíminn er knappur er mikilvægt að forgangsraða og vinna skipulega. Í félagsmálaráðuneytinu hefur hefðbundin vinnuáætlun vikið að stórum hluta fyrir því að grípa viðkvæma hópa samfélagsins sem á því þurfa að halda vegna núverandi aðstæðna.

Víðtækt samráð

Í síðustu viku boðuðum ég, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Samband íslenskra sveitarfélaga til víðtæks samstarfs ríkis, sveitarfélaga, fagaðila og hagsmunaaðila um allt land í þessum tilgangi. Í samvinnu við almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra hefur verið stofnað viðbragðsteymi um þjónustu við viðkvæma hópa sem safnar og miðlar upplýsingum, metur stöðu sem upp getur komið og bregst, eftir atvikum, við áhrifum faraldursins á mikilvæg þjónustukerfi á landsvísu.

Markmið viðbragðsteymisins er að tryggja að þeir sem þurfa fái stuðning og þjónustu og vil ég hvetja þá, sem á þurfa að halda, að hafa samband gegnum netfang viðbragðsteymisins, vidbragd@frn.is. Þangað geta allir leitað sem hafa áhyggjur af framkvæmd þjónustu, hafa ábendingar um það sem betur má fara í velferðarþjónustu hvers konar, auk þess sem einstaklingar og aðrir geta haft þar samband til að leita ráðgjafar og aðstoðar. Nú þegar hefur teymið komið því til leiðar að upplýsingar á vefnum um faraldurinn og hérlend viðbrögð hafa verið gerðar aðgengilegar á fjölda tungumála, vegna góðra ábendinga frá fulltrúum innflytjenda á Íslandi.

Aukin hætta á ofbeldi inni á heimilum

Á fundi teymisins í síðustu viku ræddum við sérstaklega aukna hættu á ofbeldi inni á heimilum í þeim aðstæðum sem nú eru uppi en samkvæmt upplýsingum sem teymið aflaði eru nú merkjanlega færri tilkynningar að berast inn í kerfið, meðal annars til barnaverndar. Börn sækja ekki skóla eins og áður og hefur yfirsýn yfir velferð þeirra versnað. Það þarf vitundarvakningu um þessa stöðu og ég hvet fólk til að vera vakandi fyrir umhverfi sínu þó mikið gangi á hjá okkur öllum. Í þessu árferði er einmitt hvað mikilvægast að muna að við stöndum öll í þessu saman. Ef þú hefur ástæðu til að ætla að ofbeldi eða vanræksla sé til staðar inni á heimili ber þér skylda til þess að vera í sambandi við þar til bæra aðila gegnum símanúmerið 112. Við erum öll barnavernd!

Við höfum nú þegar gripið til aðgerða til þess að bregðast við þessum aðstæðum og verður gripið til fleiri aðgerða á komandi dögum og vikum. Hjálparsími Rauða kross Íslands, bæði símanúmerið 1717 og vefurinn 1717.is, hefur verið efldur og getur fólk þar nú nálgast mun sérhæfðari ráðgjöf en áður. Markmiðið er að tryggja að greiður aðgangur sé að stuðningi og aðstoð fyrir þá sem það þurfa vegna álags, streitu, ofbeldis, vanlíðanar eða annarra orsaka. Hjálparsíminn er opinn fyrir alla, börn og fullorðna, fatlað fólk, aldraða, fólk af erlendum uppruna, allan sólarhringinn.

Bakvarðasveit í velferðarþjónustu

Ég vil í lokin minna á að mönnun í velferðarþjónustu er orðin flókin á vissum stöðum og ég hvet alla þá sem geta að skrá sig í bakvarðasveit í velferðarþjónustu. Skráning fer fram á vef félagsmálaráðuneytisins.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 31. mars 2020.