Eftir lok seinni heimsstyrjaldarinnar sendu Íslendingar matarböggla til bágstaddra barna í Noregi. Eftir Vestmannaeyjagosið 1973 sendu önnur Norðurlönd margvíslega aðstoð til Íslands. Seint gleymist rausnarskapur Færeyinga eftir snjóflóðin árið 1995. Norðurlöndin aðstoðuðu okkur eftir efnahagshrunið 2008 þegar flest önnur ríki neituðu hjálparbeiðnum okkar. Árið 2009 þegar hamfaraflóðin gengu yfir Asíu sendu Íslendingar flugvél til Taílands til að sækja slasaða Svía. Þetta eru aðeins örfá dæmi um norrænt samstarf og vináttu síðustu áratugi.
Yfirstandandi COVID-19 faraldur hefur undan-farið sett einstaklinga, fyrirtæki, ríki og allt alþjóða-samfélagið í óþekkta stöðu. Ljóst er að faraldurinn bitnar ekki einungis á heilsu fólks heldur einnig á atvinnulífinu og fjármálakerfinu öllu. Enginn veit hvernig best er að reyna að draga úr áhrifum faraldursins en ljóst er að ekkert land getur staðið eitt frammi fyrir þessari ógn því veiran virðir engin landamæri. Við slíkar aðstæður er nauðsynlegt að halda heildarsýn og missa ekki sjónar á gagnsemi þess að samhæfa aðgerðir milli landa. Norrænt og alþjóðlegt samstarf opnar á möguleika sem gagnast hverju og einu landanna. Við þurfum á nágrönnum okkar að halda til að miðla upplýsingum og þekkingu sem er sérstaklega mikilvæg á tímum sem þessum. Nágrannar okkar í norðri eru, nú sem fyrr, okkar mikilvægustu bandamenn. Ekki bara meðan COVID-19 veiran gengur yfir, heldur ekki síður þegar við hefjumst handa við að endurreisa þá samfélagslegu burðarstólpa sem sköðuðust á þessum einkennilegu tímum.
Samfélagsöryggi og samstarf á hættutímum eru mikilvæg svið fyrir Norðurlandaráð. Síðast á þingi ráðsins í október 2019 samþykkti það einróma nýtt stefnuskjal um samfélagsöryggi. Þar er lagt til að samstarf verði aukið á ýmsum sviðum, meðal annars hvað varðar framfærslu- og heilbrigðisviðbúnað. Stefnuskjalið inniheldur ýmsar tillögur að því hvernig samstarfið geti orðið enn betra á hættutímum, nokkuð sem Norðurlandaráð vill vinna áfram með.
Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Suðurkjördæmi og forseti Norðurlandaráðs.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 30. mars 2020.