Categories
Greinar

Tími fyrir samfélag

Deila grein

30/03/2020

Tími fyrir samfélag

Tímar sem þessir sýna svo ekki verður um villst hvernig grunnstoðir samfélagsins eru á sig komnar. Við Íslendingar getum verið tiltölulega ánægðir. Öflugt heilbrigðiskerfi tekst á við veiruna ásamt almannavörnum, skólastarf heldur áfram við breyttar og erfiðar aðstæður og atvinnuleysistryggingasjóður tekur við þeim sem missa vinnuna – svo nokkur kerfi séu nefnd. Allar áætlanir og spár breytast frá degi til dags og ljóst að næstu mánuði og ár munu gjörðir helstu viðskiptaþjóða okkar hafa mikil áhrif hér á landi. Skylda stjórnvalda er að styðja við fjölskyldur og fyrirtæki í gegnum þennan öldusjó þannig að samfélagið verði tilbúið í kröftuga viðspyrnu þegar léttir til.

Viðskiptaráð var helst til snöggt að leggja til niðurskurð hjá hinu opinbera og skerðingu á starfshlutfalli hjá opinberum starfsmönnum. Þetta kom auðvitað illa við það fólk sem nú stendur í eldlínunni við að berjast gegn útbreiðslu veirunnar á heilbrigðisstofnunum. Eru viðbrögð ráðsins í hróplegu ósamræmi við þá samstöðu og samvinnu sem ríkjandi er í samfélaginu.

Ég er stoltur af íslensku samfélagi og samheldni þjóðarinnar. Samstaðan laskaðist í hruninu og það er mikilvægt að við vinnum okkur núna saman í gegnum erfitt tímabil. Og þegar við höfum náð viðspyrnu og erum búin að ná okkur á strik verða allir að sýna samfélagslega ábyrgð. Þess vegna verða þeir sem geta að halda áfram að greiða til samneyslunnar. Það gengur auð-vitað ekki að einhverjum öflum innan viðskiptalífsins þyki sjálfsagt að koma hlaupandi í skjól ríkisins, umfram þörf, og nýta sér kraft og samstöðu samfélagsins. Krafa almennings er krafa Framsóknar. Samvinna í þágu samfélagsins alls. Sem betur fer eru flestir þar.

Öll él birtir um síðir. Það kemur vor og það kemur sól og daginn lengir. Við höfum áður tekist á við erfiðleika og staðið sterkari eftir. Við getum gert það aftur.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 30. mars 2020.