Til okkar streyma ferðamenn og fjöldi þeirra eykst frá ári til árs. Sá straumur skapar hagvöxt og atvinnutækifæri sem er gott. Hin hliðin á peningnum er ekki eins fögur. Ákveðin svæði eru komin að þolmörkum hvað varðar álag og fjölda, á meðan önnur geta vel tekið á móti fleira fólki. Helstu verkefnin felast í að auka landvörslu, bæta vegakerfið okkar og gera innanlandsflug að raunverulegum valkosti. Að auki þurfum við að endurskipuleggja skiptingu tekna af ferðamanni, þ.e. á milli ríkis og sveitarfélaga.
Ójöfn skipting tekna
Ferðaþjónustan er orðin ein meginstoð í gjaldeyrisöflun þjóðarinnar. En það er umhugsunarefni hvernig við ætlum að haga tekjudreifingu. Eins og staðan er nú þarf að hefjast handa við að tryggja réttlátari skiptingu tekna á milli ríkis og sveitarfélaga. Á vettvangi Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur ítrekað verið rætt um mikilvægi þess að sveitarfélögin fái auknar tekjur af komu ferðamanna til landsins. Eins og staðan er í dag fá sveitarfélög tekjur af útsvari þeirra sem vinna við ferðaþjónustu auk fasteignaskatta af mannvirkjum sem tilheyra ferðaþjónustunni. Þær tekjur renna af mismiklum þunga til sveitarfélaga og telja sum sig vera nokkuð afskipt vegna þess. Þau telja útgjaldaþrýsting vera fyrir hendi en litlar sem engar tekjur í augsýn til að standa undir nauðsynlegum kostnaði við uppbyggingu og fleira.
Réttlátari skipting tekna
Við Framsóknarmenn höfum talað fyrir því að beinum tekjum sem ríkið fær af ferðamönnum verði deilt þannig að 1/3 renni beint til ríkisins, 1/3 til sveitarfélaga og 1/3 í uppbyggingarsjóð. Þannig er hægt að dreifa peningunum þangað sem tekjurnar eru minnstar og þörfin mest þannig að kerfið haldi áfram að stækka og dreifa ferðamönnum skipulega um landið. Ef við ætlum í raun að dreifa álaginu þurfum við að ráðstafa tekjum ríkisins þar sem sóknarfærin eru minnst fyrir einkaaðila. Hið opinbera þarf að standa undir því að byggja upp grunninnviði vítt og dreift um landið til að styrkja heimamenn í uppbyggingu og skapa grundvöll til tekjuöflunar. Það er góð leið til að jafna tækifæri og styrkja jafnrétti til búsetu. Ein leið til tekjuöflunar fyrir sveitarfélögin væri að láta gistináttagjaldið renna óskipt til þeirra. Ég hef einnig þá skoðun að gistináttagjaldið eigi ekki að vera föstu krónutala, eins og nú er (300 kr) heldur ákveðið hlutfall af gjaldi. Annað býður upp á ranglæti gagnvart þeim sem eru bjóða ódýra gistingu.
Laskað orðspor áhyggjuefni
Töluvert hefur verið gert úr því að aukin gjaldtaka á ferðamenn hafi fælandi áhrif og geti dregið úr ásókn þeirra til landsins. Starfshópur á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga sem telur það vera óþarfa áhyggjur þar sem alvanalegt er að fólk greiði fyrir aðgang að ferðamannastöðum annars staðar og ýmsir skattar og gjöld séu á gistingu. Gjöldin eru ekki það sem ferðamenn athuga fyrst þegar ákvörðun um ferðalag er tekin. Aftur á móti eru meiri líkur á að aðgerðaleysi varðandi nauðsynlega uppbyggingu geti laskað orðspor landsins og haft skaðleg áhrif á markaðssetningu Íslands sem ferðamannalands. Við eigum að vera ófeimin við frekari gjaldtöku en Framsóknarflokkurinn vill t.d. auka tekjur ríkissjóðs með því að leggja á komugjald. Það væri a.m.k. skynsamlegra en að leggja á vegatolla, eins og núverandi samgönguráðherra hefur talað fyrir.
Fleiri fluggáttir-betri dreifing
Í tíð síðustu ríkisstjórnar var hafin markviss vinna við að opna fleiri gáttir inn í landið. Einnig hefur verið talað fyrir því að hefja innanlandsflug frá Keflavíkurflugvelli þannig að erlendir ferðamenn getir haldið för sinni óhindrað áfram og heimsótt aðra landshluta á einfaldan máta. Tengiflug innanlands frá Keflavíkurflugvelli hófst nú í febrúar og það verður spennandi að sjá hvernig það verkefni muni ganga. Ef það gengur vel þá er sjálfsagt að bjóða upp á fleiri flugleiðir innlands, eins og til Egilstaða og Ísafjarðar. Fleiri gáttir og einföldun á fyrirkomulagi innanlandsflugs mun án efa auka dreifingu ferðamanna um landið, minnka álag á viðkvæm svæði og draga verulega úr álagi á vegakerfið okkar, sem er í slæmu ásigkomulagi, en það verkefni er efni í aðra grein.
Silja Dögg Gunnarsdóttir
Greinin birtist í Suðra 19. mars 2017.