Categories
Greinar

Tími Framsóknar í efnahagsmálum

Deila grein

19/03/2020

Tími Framsóknar í efnahagsmálum

Það er staðreynd að við erum að ganga inn í kólnandi hagkerfi eftir uppsveiflu undanfarinna ára. Þar koma til nokkrar ástæður eins og fækkun ferðamanna og loðnubrestur svo eitthvað sé nefnt. Við þetta bætast svo efnahagsáhrif af völdum COVID-19. Í kólnandi hagkerfi þurfa fyrirtæki gjarnan að hagræða og grípa til uppsagna sem leiðir til aukins atvinnuleysis og minnkandi hagvaxtar. Efnahagsstaða þjóða getur verið sveiflukennd og það þekkjum við í Íslandssögunni. Viðbrögð stjórnvalda hverju sinni hafa áhrif á stöðu og framgang efnahagsmála til framtíðar. Staða ríkissjóðs er sterk og það er sá grunnur sem við getum byggt á þegar við bregðumst við fyrirliggjandi krísu.

Áform stjórnvalda

Viðbrögð ríkisstjórnarinnar hafa verið fumlaus og ákveðin. Nú hefur þegar verið brugðist við og kynntar aðgerðir sem munu spyrna á móti niðursveiflu í hagkerfinu í þessum fordæmalausu aðstæðum sem skapast hafa vegna COVID-19. Markmiðið með þeim aðgerðum er að styðja við bankakerfið til þess að hægt verði að fleyta fyrirtækjum yfir erfiða hjalla næstu mánuði.

Farið verður í ákveðnar skattkerfisbreytingar til þess að lækka álögur og síðast en ekki síst verða settir á bilinu 20-25 milljarðar á ári næstu þrjú árin í innviðaframkvæmdir sem ætlað er að vera innspýting fyrir hagkerfið. Þar eru aðgerðir sem eru mannaflsfrekar og ákveðnar framkvæmdir eru til þess fallnar að efla atvinnutækifæri. Má þar nefna brúagerð, vegaframkvæmdir og hafnarframkvæmdir. Mikilvægt er á tímum sem þessum að stjórnvöld bregðist við með markvissum hætti til að vega upp á móti niðursveiflu í hagkerfinu sem koma bæði atvinnulífinu og þá heimilunum til góða.

Þegar rykið sest

Gera má ráð fyrir að COVID-19 muni ganga hér yfir á einhverjum mánuðum og eru stjórnvöld að taka málið föstum tökum. Fyrir liggur að einhverjar raskanir muni verða á hefðbundnu lífi borgaranna en stjórnvöld stefna á að lágmarka þær. Samheldni þjóðarinnar skiptir miklu máli og hefur hún sýnt það í verki með því að fara eftir leiðbeiningunum almannavarna og landlæknis sem er gríðarlega mikilvægt. Þannig komumst við standandi niður úr þessu falli.

Þegar rykið sest verður hægt að fara af fullum krafti í það að efla atvinnulífið. Verður það meðal annars gert með þeim aðgerðum sem farið hefur verið hér yfir sem og öflugu markaðsátaki í ferðaþjónustu og með því réttum við við stærsta atvinnuveg landsins. Það er líka þekkt að upp úr krísum myndast ný tækifæri eins og kom í ljós eftir síðustu krísu. Þjóðarskútan mun rétta sig við og það þekkjum við öll sem búum á landi elds og ísa og stöndum saman nú sem fyrr. Það mun skila sér til komandi kynslóða eins og við öll þekkjum.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 19. mars 2020.