Categories
Fréttir

„Samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir“

Deila grein

17/03/2020

„Samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir“

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, minnir á að er samgönguáætlun var afgreidd frá Alþingi, fyrir ári síðan, hafi verið samþykkt, með auknum meirihluta og án mótatkvæða, að fela samgönguráðherra að útfæra leiðir til að auka fjármagn í til vegasamgangna. Þetta kemur fram í yfirlýsingu hennar á Facebook í dag.
„Nú hefur samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra lagt fram frumvarp um samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.
Þær framkvæmdir sem þar er tilgreint að heimilt verði að bjóða út sem samvinnuverkefni eru:

a. Hringvegur norðaustan Selfoss og brú á Ölfusá.
b. Hringvegur um Hornafjarðarfljót.
c. Axarvegur.
d. Tvöföldun Hvalfjarðarganga.
e. Hringvegur um Mýrdal og jarðgöng í Reynisfjalli.
f. Sundabraut.

Þessi sömu verkefni eru öll tilgreind í samgönguáætlun sem lögð var fram á Alþingi í nóvember 2019,“ segir Líneik Anna.
„Samvinnuleið (PPP-verkefni) getur verið vænlegur kostur til að flýta samgönguframkvæmdum. Í samvinnuverkefni felst að einkaaðili annast fjármögnun í heild eða að hluta eða tekur með öðrum hætti áhættu af gerð og rekstri opinbers mannvirkis, með heimild til gjaldtöku fyrir notkun,“ segir Líneik Anna.

„Samvinnuaðferð hentar ekki við allar framkvæmdir. Erlend reynsla og rannsóknir á slíkum framkvæmdum benda til þess að slík verkefni skuli helst vera nýframkvæmdir sem eru umfangsmiklar og vel skilgreindar. Einnig mætti skoða að fara þessa leið varðandi tiltekin umfangsminni verkefni sem fælu þó í sér mikinn ábata í formi styttingar á ferðatíma og/eða vegalengd auk þess sem önnur leið væri í boði.“

„Nauðsynlegt að fá þetta frumvarp fram áður en samgönguáætlun verður afgreidd,“ segir Líneik Anna.