Categories
Greinar

Tími til að lesa!

Deila grein

04/07/2022

Tími til að lesa!

Nú stytt­ist óðum í að stelp­urn­ar okk­ar spili sinn fyrsta leik á Evr­ópu­móti kvenna í knatt­spyrnu sem fram fer í Bretlandi. Í til­efni af þátt­töku Íslands á mót­inu skipu­legg­ur menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneytið og mennta- og barna­málaráðuneytið lestr­ar­hvatn­ing­ar­her­ferðina Tími til að lesa sem ætluð er fyr­ir les­end­ur á grunn­skóla­aldri í sum­ar.

Hvatn­ing­in er skemmti­leg og inn­blás­in af þátt­töku stelpn­anna okk­ar á EM. Að þessu sinni snýst lestr­ar­hvatn­ing­in um bæði lest­ur og sköp­un. Börn og for­eldr­ar gera með sér samn­ing um ákveðinn mín­útu­fjölda í lestri fyr­ir hvern leik og hvert mark sem stelp­urn­ar okk­ar skora á EM. Þá geta krakk­ar einnig tekið þátt í að skapa og skrifa sögu til þess að senda inn – en sag­an þarf að inni­halda bolta. Nán­ari upp­lýs­ing­ar er að finna á vefsíðunni www.tim­itila­dlesa.is.

Mik­il­vægi lest­urs og lesskiln­ings er ótví­rætt. Við höf­um lagt á það ríka áherslu síðustu ár að bæta læsi, ekki síst hjá börn­un­um okk­ar. Orðaforði og lesskiln­ing­ur eykst með aukn­um lestri og því er ómet­an­legt fyr­ir börn að lesa, taka glós­ur og spyrja út í orð sem þau þekkja ekki. Orðaforði barna skipt­ir miklu máli fyr­ir vellíðan og ár­ang­ur í skóla og býr þau und­ir virka þátt­töku í sam­fé­lag­inu. Með auk­inni mennt­un eykst sam­keppn­is­hæfni þjóðar­inn­ar og geta henn­ar til að standa und­ir eig­in vel­ferð.

Sum­arið er tími sam­ver­unn­ar, úti­vist­ar og leikja en það er mik­il­vægt að minna á lest­ur­inn líka. Það er staðreynd að ef barn les ekk­ert yfir sum­ar­tím­ann get­ur orðið allt að þriggja mánaða aft­ur­för á lestr­ar­færni þess í sum­ar­frí­inu. Góðu frétt­irn­ar eru þó að það þarf ekki mikið til að börn viðhaldi færn­inni eða taki jafn­vel fram­förum. Rann­sókn­ir sýna að til þess að koma í veg fyr­ir þessa aft­ur­för dug­ar að lesa aðeins 4-5 bæk­ur yfir sum­arið eða lesa að jafnaði tvisvar til þris­var í viku í um það bil 15 mín­út­ur í senn.

Tími til að lesa er ein leið til þess að hvetja börn til lest­urs en gleym­um því ekki að bestu fyr­ir­mynd­ir barn­anna þegar kem­ur að lestri eru for­eld­arn­ir. Það er væn­legra til ár­ang­urs ef fleiri taka sér bók í hönd á heim­il­inu en börn­in. Sem fyrr læra þau það sem fyr­ir þeim er haft og þess vegna þurf­um við öll að muna eft­ir því að lesa líka. Setj­um lest­ur­inn á dag­skrá í sum­ar, sam­hliða því að hvetja stelp­urn­ar okk­ar áfram í Bretlandi með ráðum og dáð.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar­ráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 4. júlí 2022.